Gult og svo framvegis og Hrímfugl komin á sinn stað

12/01 2010

Efsti hluti klukkunnar frægu frá Brekku á Álftanesi sem sagði „ei-líbbð ei-líbbð“ í Brekkukotsannál. Árið 1916 skrifaði Halldór Laxness grein um klukkuna í Morgunblaðið og kemur þar fram að hún hafi komið til landsins „á öndverðum síðasta fjórðungi 18. aldar“. Hún gengur enn og slær með björtum fögrum hljóm. Með stiganum upp á efri hæðina hanga tvö málverk eftir Svavar Guðnason og eitt eftir norska málarann Weiderman. Myndina yfir dyrunum inn í eldhúsið segir Auður Halldór hafa „keypt í útlöndum“.

Málverk Svavars Guðnasonar; Gult og svo framvegis og Hrímfugl, sem allajafna prýða ganginn upp stigann á Gljúfrasteini, komu heim í síðustu viku eftir að hafa verið í láni á yfirlitssýningu á verkum Svavars Guðnasonar frá því í október. Sýningin var í Listasafni Íslands frá 31. október 2009 til 3. janúar 2010.

Halldór Laxness og Svavar Guðnason voru vinir. Það veitti Halldóri innblástur að horfa á verk Svavars. Halldór flutti erindi um hann í útvarp þegar Svavar var sjötugur: „Þegar maður virðir fyrir sér litróf Svavars Guðnasonar, verður ekki betur séð en þar ráði furðulegt blæbrigði af rauðu... Það er vissulega ekki eiginlegt sólskin í málverki Svavars Guðnasonar, en allir sem sjá vilja, undrast hvílík birta býr í litrófi hans. Og útlendingar segja stundum þegar þeir sjá þennan litblæ Svavars sem sker sig úr innan um aðrar myndir: Þetta er birta Íslands. “

Eins og sjá má hér prýða fjölmörg önnur verk eftir Svavar Guðnason veggi Gljúfrasteins líkt og eftir marga aðra helstu listmálara tuttugustu aldarinnar. Þar á meðal má nefna Kjarval, Nínu Tryggvadóttur, Kristján Davíðsson og Þorvald Skúlason.