Málverkið Jóhannes skírari, málað 1924, átti að vera altaristafla í Rípurkirkju í Hólaprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi, heimamenn vildu ekki taka við henni því hún þótti bæði klúr og ljót. Í það minnsta var hún ekki nógu biblíuleg.
Myndin fór því í geymslu og svo á heilmikið flakk, hún var meðal annars send til Kaupmannahafnar í viðgerð þar sem verkið síðan dagaði uppi og týndist. Reynt var eftir öllum leiðum að hafa uppi á henni en á endanum var leitað eftir hjálp Hafsteins Björnssonar miðils sem gat staðsett myndina sem síðan fannst í geymlsu Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn. Hér má lesa grein Hreins Hákonarsonar um sögu myndarinnar.
Eftir allt þetta komst verkið svo til Ólafs bónda á Hellulandi í Skagafirði. Eftir hans dag hafði ekkja Ólafs samband símleiðis til Halldórs Laxness og bauð honum myndina fyrir peninga. Ólafur og Halldór höfðu verið kunningjar og kom Halldór stundum við hjá Ólafi er hann var á ferð um norðurland.
Listamaðurinn Kjarval kom einhverju sinni í heimsókn og vildi þá fyrir alla muni setja einhvers konar skegg á efri vör Jóhannesar skírara í verkinu. Halldór stöðvaði þær endurbætur þótt það megi hæglega sjá móta fyrir fáeinum svörtum strikum sem virðast hafa átt að vera yfirvaraskegg og gleraugu á Jóhannes skírara.