Gripur vikunnar

12/05 2020

Gripur vikunnar er klukka. Klukkan stendur í forstofunni á Gljúfrasteini og er það fyrsta sem blasir við þegar komið er inn í húsið. Hún var smíðuð hjá James Cowan í Edinborg, úrverkið er frá 1770, en kassinn sjálfur frá Borgundarhólmi í Danmörku.

„Það slær í augum manns einkennilegum helgiblæ á ýmsa forna hluti – hluti, sem hafa verið lengi við líði og eiga sér sögu. Komi maður inn á forngripasafn, fellur hugur hans í stafi við að standa augliti til auglitis við helgidóma fortíðarinnar.“ (HKL. Gömul klukka Morgunblaðið 7. nóvember 1916.)

Þetta skrifar Halldór 14 ára gamall í greininni Gömul klukka sem birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 1916. Í þessari sérstöku grein rekur Halldór sögu klukkunnar sem hann sá fyrst í heimsókn hjá ömmusystur sinni í Melkoti. Greinina má lesa í heild hér.

Þessa klukku gerir Halldór að sögupersónu í skáldsögu sinni Brekkukotsannáll. Hún stendur vaktina í Brekkukoti og tifar eilíbbð, eilíbbð í eyru aðalsöguhetjunnar Álfgríms.

„Þessi klukka tifaði hægt og virðulega, og mér bauð snemma í grun að ekki væri mark takandi á öðrum klukkum. Úr manna virtust mér einsog ómálga börn í samanburði við þessa klukku. Sekúndurnar í annarra manna klukkum voru einsog óðfara pöddur í kapphlaupi við sjálfar sig, en skeúndurnar í sigurverkinu hjá afa mínum og ömmu, þær voru einsog kýr, og fóru ævinlega eins hægt og unt er að gánga án þess að standa þó kyr.“ (HKL. Brekkukotsannáll bls 3)