Grænu skrefin á Gljúfrasteini 

25/08 2021

Starfskonur Gljúfrasteins fagna viðurkenningu fyrir að hafa tekið græn skref í rekstri safnsins.

Starfsfólk Gljúfrasteins vinnur nú að því að stíga græn skref í þágu umhverfisins. Síðastliðið vor fékk safnið viðurkenningu Umhverfisstofnunar þegar fyrsta græna skrefið var tekið. Skrefin eru fimm og nú vinnur starfsfólk safnsins að því að taka næsta skref. Að ýmsu er að hyggja á þessari vegferð sem farin er til að sporna gegn frekari hlýnun jarðar. Starfsfólk hefur frá opnun safnsins árið 2004 verið meðvitað um mikilvægi nægjusemi og virðingar fyrir umhverfinu.

Hér hefur verið reynt að sóa ekki matvælum, hér er rafmagn sparað eftir fremsta megni, hlutir endurnýttir þegar það hefur verið hægt, plast, pappír, pappi og gler flokkað. Einnig hugað að umhverfinu, innkaupum og forðast að kaupa einnota hluti, má í því sambandi nefna að frá upphafi hefur gestum Gljúfrasteins verið boðið uppá sérsaumaðar og því margnota hlífar yfir skó áður en farið er inn á safnið, í stað einnota skóhlífa.

Í vor var keypt jarðvegartunna þar sem lífrænum úrgangi er safnað til niðurbrots.