Hvernig væri fyrir gönguklúbbinn, saumaklúbbinn eða fjölskylduna að fá sér göngutúr og heimsækja svo Gljúfrastein? Eftir göngutúr og safnaheimsókn er svo ekki úr vegi að fá sér kaffi og með því í Mosfellsbænum.
Mosfellsdalurinn skartar sínu fegursta jafnt sumar sem vetur. Það er upplagt að skella sér í föðurlandið og gönguskóna og fá sér göngutúr á skáldaslóðum. Um nóg er að velja hvort sem það er aðeins til að viðra sig og ganga til dæmis örlítið upp með Köldukvíslinni eða að fara í lengri göngu til dæmis upp á Grímannsfell, að Helgufossi eða í átt að Mosfellskirkju. Starfsmenn Gljúfrasteins eru fúsir til að leiðbeina fólki um gönguleiðir eins og þeir geta, einnig er á safninu hægt að nálgast göngukort með gönguleiðum í nágrenninu.
Á Gljúfrasteini er tekið á móti hópum og einstaklingum allt árið um kring. Yfir vetrartímann er opið alla daga nema mánudaga frá 10-17.