Nú þegar farið er að vora er vert að benda á ágætar gönguleiðir í Mosfellsdal. Hvernig væri fyrir gönguklúbbinn, saumaklúbbinn eða fjölskylduna að fá sér göngutúr og heimsækja svo Gljúfrastein? Eftir göngutúr og safnaheimsókn er svo ekki úr vegi að fá sér kaffi og með því í Mosfellsbænum.
Mosfellsdalurinn skartar sínu fegursta jafnt sumar sem vetur. Það er upplagt að skella sér í föðurlandið og gönguskóna og fá sér göngutúr á skáldaslóðum. Um nóg er að velja hvort sem það er aðeins til að viðra sig og ganga til dæmis örlítið upp með Köldukvíslinni eða að fara í lengri göngu til dæmis upp á Grímannsfell, að Helgufossi eða í átt að Mosfellskirkju. Starfsmenn Gljúfrasteins eru fúsir til að leiðbeina fólki um gönguleiðir eins og þeir geta, einnig er á safninu hægt að nálgast göngukort með gönguleiðum í nágrenninu.
Fyrir þau ykkar sem eruð skipulögð og viljið taka frá tíma er bent á skemmtilega skáldagöngu þann 8. júní. Sú ganga er skipulögð í samvinnu við VInafélag Gljúfrasteins og Ferðafélag Íslands. Mosfellsdalur er sögusvið bókanna Í túninu heima og Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness. Í dalnum sleit skáldið barnsskónum en rúmum 900 árum fyrr paufaðist Egill Skallagrímsson þar um, kominn að fótum fram. Skáldagangan tengir saman slóðir þeirra beggja. Sameinast verður í bíla og ekið að Hrísbrú þar sem litið verður á fornleifauppgröft. Þaðan er haldið að Mosfelli, kirkjan skoðuð og rýnt í Innansveitarkroniku. Loks verður gengið yfir Kýrgil og skimað eftir silfri Egils. Þaðan er haldið að Laxnesi með viðkomu á Gallerí Hvirfli og hjá Guddulaug. Gangan endar á Gljúfrasteini þar sem hægt er að skoða hús skáldsins. 3-4 klst. ganga. Takið daginn frá.