Góðir gestir á Gljúfrasteini

04/10 2012

Krakkar úr 7. bekk Hofstaðaskóla að skoða svefnherbergi skáldsins

Haustið er komið í allri sinni dýrð. Rauði og guli liturinn orðinn áberandi í náttúrunni og laufin tekin að falla. Skóla- og starfsmannahópar eru duglegir að heimsækja safnið þessa dagana. Í gær komu hópar bæði grunn- og framhaldsskólanema í heimsókn, einnig sjö vaskir menn frá Lionsklúbbnum Baldri. Þeir Lionsfélagar höfðu frá mörgu að segja og mundu vel eftir skáldinu.

Í lok hljóðleiðsagnar kvaddi Dr. Sturla Friðriksson sér hljóðs og fór með limrur sem féllu í góðan jarðveg viðstaddra.

 

Leynifundur 3. okt. 2012 að Gljúfrasteini

Að húsi við læddumst í leyni.
(Í limru ég frá þessu greini).
Til að skoða um stund
þessa skrifstofugrund
skáldsins á Gljúfrasteini.

Til lestrar ei vantaði viljan,

þótt virtist oft torvelt að skilj´ann.
Við hlýddum á sögur,
sagnir og bögur
sagðar af Halldóri Kiljan.

Við drengir minnumst nú dags þess,
er dáðum við húsið og brag þess.
Það var laglegt að sjá
og líta þar á
listaverkin hans Laxness.