Margir notuðu tækifærið og heimsóttu Gljúfrastein á Safnanótt síðasta föstudag. Hægt var að skoða safnið og klukkan 21 hélt Pétur Ben vel heppnaða tónleika.
Gestum safnsins bauðst ókeypis ferð upp í Mosfellsdalinn með Safnanæturstrætó og voru þónokkrir sem nýttu sér það. Þeir gátu svo rölt um safnið og skoðað það helsta sem Gljúfrasteinn hefur upp á að bjóða áður en sest var niður í stofunni og Pétur Ben tók við. Tónleikarnir voru bráðskemmtilegir og þó að flytjandinn tæki fram að honum þætti varla við hæfi að flytja texta á ensku í stofu Nóbelskáldsins þá þótti gestum það ekki koma að sök og skemmtu sér prýðilega.
Safnanótt er ávallt skemmtilegur viðburður enda vel þess virði að vekja athygli almennings á þeirri fjölbreyttu starfsemi safna sem fer fram á höfuðborgarsvæðinu.