Glódís M. Guðmundsdóttir kemur fram á næstu stofutónleikum Gljúfrasteins, sunnudaginn 20. júlí. Hún mun flytja píanósónötu í A - dúr eftir Franz Schubert.
Glódís er fædd árið 1990. Átta ára gömul hóf hún píanónám í Tónlistarskóla Rangæinga. Kennari hennar þar var Hédi Maróti. Glódís útskrifaðist frá Tónlistarskóla Rangæinga vorið 2010 og hélt hún burtfarartónleika í Selinu á Stokkalæk og hlaut einkunnina 9.5 fyrir. Síðan þá hefur hún reglulega komið fram í Selinu sem einleikari. Glódís hóf nám í Listaháskóla Íslands haustið 2010 þar sem hún hefur lært síðan undir leiðsögn Peter Máté. Hún hélt útskriftartónleika sína frá Listaháskólanum í desember 2013 og útskrifaðist formlega frá skólanum núna í vor. Á útskriftartónleikunum spilaði Glódís meðal annars tvær ballöður eftir Chopin, Etýður eftir Rachmaninoff og Píanókvartett eftir Mahler. Í sumar tók hún þátt í Píanókeppni Norðurlandanna í Danmörku og tónlistarhátíðinni Casalmaggiore Music Festival á Ítalíu þar sem hún kom fram sem einleikari
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.