Síðasta föstudag var Gerpla frumsýnd í Þjóðleikhúsinu og í apríl verður Íslandsklukkan á fjölunum.
Í tilefni þessa hafa Gljúfrasteinn og Þjóðleikhúsið ákveðið að taka höndum saman og bjóða gestum afslátt á safnið og sýningarnar. Gestir Gljúfrasteins fá 700 króna afslátt á miðaverð sýninganna og leikhúsmiðahafar á Gerplu og Íslandsklukkuna fá aðgang að safninu tveir fyrir einn.
Leikgerð er í höndum Baltasar Kormáks og Ólafs Egils Egilssonar og unnin í samvinnu við leikhópinn. Á undanförnum árum hefur Baltasar sett upp geysivinsælar sýningar í Þjóðleikhúsinu, þar sem hann hefur tekið vinsæl og virt skáldverk frumlegum og ögrandi tökum. Ásamt einvala liði leikhúsfólks leggur hann nú til atlögu við meistaraverk Nóbelsskáldsins, en Gerpla hefur aldrei áður verið sett á svið.
Hægt er að lesa meira um sýninguna á heimasíðu Þjóðleikhússins. Jóhannes Haukur Jóhannesson og Björn Thors fara með hlutverk fóstbræðranna Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðs Kolbrúnarskálds.
„Þorgeir Hávarsson… brosti því aðeins að honum væri víg í hug ellegar nokkurt annað stórvirki.“
„Því verða menn skáld og hetjur, að þeir búa eigi við hamíngju sína."
(11. kafli. Þormóður Kolbrúnarskáld.)