Mitt er þitt og hjá mér áttu heima,
víst skaltu öllum veraldarsorgum gleyma.
Þannig kvað Ólafur Kárason Ljósvíkingur í Heimsljósi Halldórs Laxness. Kvæðið Hjá lygnri móðu krotaði hann upp á bréfsnepil að kvöldlagi og stakk því síðan undir höfðalagið sitt.
Ólafur Kárason, skáld og niðursetningur var snauður, fyrirlitinn og afskiptur en í huga hans ríkti fegurðin ein. Í kvæðinu er Ólafur að minnast Guðrúnar á Grænhóli ,,til þess að óbornar kynslóðir skyldu ekki gleyma henni.”
,,Hann leitaði fyrirmyndar í öllum skáldskap sem hann kunni, og reyndi að yrkja um hana undir ýmsum háttum, en fanst hún of tignarleg fyrir alla, bæði sálma og rímur. Að lokum fann hann að hún átti heima í þjóðsögunum. Þegar hann loks hafði uppgötvað þetta gat hann ort eins og henni sæmdi, …" Heimsljós - ljós heimsins, bls 64
,,Mitt er þitt og hjá mér áttu heima” er leiðarstefið í því ferðalagi sem gestum er nú boðið í um Gljúfrastein á tímum samkomubanns, þegar páskafrí er framundan. Hér getur fólk hvar sem er á landinu ferðast innandyra á Gljúfrasteini og rennt augum yfir alla þá fegurð sem þar er að finna og um leið notið þess að hlusta á Hamrahlíðakórinn syngja Hjá lygnri móðu.
Hjá lygnri móðu í geislaglóð
við græna kofann,
hann sá hvar hún stóð hið fríða fljóð
fráhnept að ofan.
Mitt er þitt og hjá mér áttu heima,
víst skaltu öllum veraldarsorgum gleyma.
Á hann leit hún æskuteitu
auga forðum,
það var kvöld í sveit og hún kvaddi hann veit ég
kærleiksorðum.
Mitt er þitt og hjá mér áttu heima,
víst skaltu öllum veraldarsorgum gleyma.
Í sínu hjarta augað bjarta
og orðið góða
hann geymir sem skart uns grafarhúm svart
mun gestum bjóða.
Mitt er þitt og hjá mér áttu heima,
víst skaltu öllum veraldarsorgum gleyma.
Safnið í netheimum til að gleðja fólk í samkomubanni.
Verkefni þetta var unnið í byrjun apríl 2020 meðan ekki var hægt að taka á móti gestum á Gljúfrasteini vegna samkomubanns. Sú hugmynd kviknaði að sýna húsið með þessum hætti til að gleðja fólk sem ferðast innandyra.
Sönginn sem heyra má undir myndbandinu er upptaka með Hamrahlíðakórnum úr þættinum Klassíkin okkar - uppáhald íslenskt sem sýndur var á RÚV í ágúst 2018. Kórinn syngur kvæði Halldórs Laxness, Hjá lygnri móðu við lag Jóns Ásgeirssonar. Safn RÚV gefur Gljúfrasteini leyfi til notkunar á upptökunni. Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri og Jón Ásgeirsson tónskáld hafa jafnframt gefið leyfi. Ljósmyndari er Vignir Már Garðarson.
Verk eftir eftirtalda listamenn má sjá á myndunum en eftir:
Asger Jorn
Ásmundur Sveinsson
Auður Sveinsdóttir Laxness
Barbara Moray Árnason
Erlingur Jónsson
Erró
Frank Joseph Ponzi
Frans Widerberg
Halldór Laxness
Jacob Weidemann
Jóhannes Kjarval
Karl Kvaran
Kristján Davíðsson
Louisa Matthíasdóttir
Nína Tryggvadóttir
Orest Georgievich Verejsky
Sigurjón Ólafsson
Svavar Guðnason
Tolli
Vigdís Pálsdóttir
Wilhelm Kuhnert
William Heinesen
Afrit af safnkosti þeim er hér er birtur felur í sér höfundaréttarvarið efni, en birtingin fer fram á grundvelli samningskvaðasamnings á milli Myndstefs og viðkomandi safns. Samningurinn veitir enn fremur leyfi til endurnotkunar verkanna til einkanota og í kennslu eða í fræðsluskyni. Öll önnur endurbirting/eintakagerð er óheimil. Ef spurningar vakna um forsendur samningskvaðasamningsins, eða ef einstaka höfundur vill ekki heimila notkun verka sinna undir ofangreindum skilmálum, skal hafa samband við Myndstef- myndstef@myndstef.is
[ENSKA] National and international copyright laws protect the artwork here presented. Publishing of the artwork on this website is based on a Extended Collective License (ECL) between Myndstef and each museum, according to the Icelandic copyright bill. This ECL also permits the use of the artworks for research, educational or private use. The artworks may not be reproduced or made public in any other way. Please contact Myndstef for further information or in order to obtain a license. myndstef@myndstef.is