Gljúfrasteinn er í hópi þeirra safna sem hlutu öndvegisstyrk úr aðalúthlutun safnaráðs 2023. Lilja Alfreðsdóttir ráðherra kynnti úthlutun styrkja ráðsins við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafninu mánudaginn 13. febrúar. Öndvegisstyrkurinn er veittur til þriggja ára, frá 2023 til 2025.
Á næsta ári verða 20 ár liðin frá opnun safnsins og því verður fagnað með ýmsum hætti. Í ár verður hafist handa við undirbúning nokkurra verkefna og mun öndvegisstyrkurinn frá safnasjóði koma sér vel. Eins og fram hefur komið mun Gljúfrasteinn fá nýtt húsnæði í Jónstótt handan Köldukvíslar. Þó ekki liggi nákvæmlega fyrir hvenær húsið verður tilbúið til notkunar mun undirbúningur flutninga hefjast af fullum krafti í ár.
Meðal annars verður ráðist í að endurnýja hljóðleiðsögnina og rannsaka og undirbúa uppsetningu nýrra sýninga í tveimur herbergjum á efri hæð hússins. Miðað er við að þar verði sýning á annars vegar unglingaherbergi og hins vegar barnaherbergi. Þá mun móttaka og vinnuaðstaða starfsfólk flytjast í Jónstótt og eldhúsið á Gljúfrasteini bætist alfarið við sem sýningarsvæði. Í framhaldinu verður bílskúrnum breytt í sýningarrými þar sem gestir geta sest niður og horft á myndbönd og annað fræðsluefni. Allt húsið verður því til sýnis í fyrsta sinn frá því að Gljúfrasteinn opnaði sem safn.
Ný viðburðadagskrá verður jafnframt kynnt en með viðburðunum verður mögulegt að ná til hópa með mismunandi áhugasvið. Markmiðið er að Gljúfrasteinn verði staður sem hægt er að heimsækja aftur og aftur og fræðast um lífið á Gljúfrasteini, verk skáldsins, umhverfið í Mosfellsdalnum og njóta fjölbreyttrar fræðslu og upplifunar. Við hlökkum til að hefja nýjan kafla í starfsemi Gljúfrasteins á þessum tímamótum.