Gljúfrasteinn á nýju ári

06/01 2015

Gljúfrasteinn í byggingu

Árið 2015 markar tímamót í sögu Gljúfrasteins en sjötíu ár eru liðin frá því húsið reis í Mosfellsdalnum og þau Halldór Laxness og Auður Sveinsdóttir fluttu inn. Húsið teiknaði arkitektinn Ágúst Pálsson (1893 – 1967). Að hönnun húsgagna og innréttinga kom Birta Fróðadóttir (1919-1975) húsgagnasmiður og innanhússarkitekt. Auður átti síðar eftir að minnast Birtu og samvinnuverkefnis þeirra á Gljúfrasteini í minningargrein sem birtist eftir andlát Birtu í Morgunblaðinu haustið 1975.

Áður en varði, var hún búin að taka að sér að innrétta framtíðarhúsið mitt að Gljúfrasteini. Vikum saman hittumst við nærri daglega. Við fórum til Karólínu vefkonu og Birta bjó í hendur henni áklæði, salúnsábreiður og gluggatjöld fyrir allt húsið, teiknaði og valdi húsgögn fyrir smiðina i Björk, valdi liti á veggina og útvegaði búshluti. Það var haldið reisugildi þar sem við vorum bara tvær kvenna og áður en varði var komið fullbúið hús á hólinn.

Heimili þeirra Halldórs og Auðar stendur nú öllum opið en á Gljúfrasteini er bókasafn Halldórs varðveitt auk þess sem húsið prýða fjölmörg textílverk Auðar, húsmunir og húsgögn sem skipa mikilvægan sess í norrænni hönnunarsögu.

Í ár eru einnig liðin sextíu ár frá því Halldór tók við Nóbelsverðlaununum í bókmenntum þann 13. desember árið 1955. Þessara tímamóta verður minnst með margvíslegum hætti á árinu. Fastir liðir eins og stofutónleikar og upplestrar verða einnig á dagskrá en að auki mun safnið taka þátt í ýmsum viðburðum s.s. eins og Safnanótt sem haldinn verður föstudaginn 6. febrúar nk.

Þær breytingar verða gerðar á opnunartíma safnins og aðgangseyri í ár að frá og með 1. janúar verður opið frá kl. 10:00 til 16:00 alla virka daga nema mánudaga en frá 1. júní til 31. ágúst verður opið alla daga frá kl. 9:00 til 17:00. Lokað er um helgar frá 1. nóvember til 1. mars. Aðgangseyrir verður 900 fyrir 18 ára og eldri en 700 fyrir eldri borgara og öryrkja. Frítt er fyrir börn undir 18 ára aldri.