Kristinn Árnason spilar á gítar á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 4. júlí klukkan 16. Efnisskráin er fjölbreytt og spannar tónverk frá 16. til 21. aldarinnar. Tónverk verða leikin eftir Luis Milan, Giovanni Kapsberger, Johann Sebastian Bach, Manuel de Falla, Isaac Albeniz og eftir Kristinn sjálfan.
Kristinn Árnason lauk burtfararprófi frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar árið 1983. Hann stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum, Englandi og Spáni. Kristinn hefur haldið fjölda tónleika í Reykjavík, á landsbyggðinni auk tónleika á Ítalíu, Bandaríkjunum, Noregi, Danmörku, Englandi og Hollandi. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp, leikið kammertónlist af ýmsu tagi og þegið starfslaun listamannna frá íslenska ríkinu.
Nokkrir geisladiskar hafa komið út með gítarleik hans, geisladiskur hans með verkum eftir Sor og Ponce hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 1997 í flokki klassískra hljómdiska. Árið 2007 hlaut Kristinn verðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns og hann hefur að auki hlotið tilnefningu til menningarverðlauna DV.
Stofutónleikar Gljúfrasteins verða alla sunnudaga í sumar kl.16.
Gljúfrasteinn er opinn alla daga í sumar frá kl. 9–17.
Aðgangseyrir er 1.000 krónur og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.