Fyrsti fyrirlestur vetrarins á Gljúfrasteini – húsi skáldsins verður í höndum Jóns Ögmundar Þormóðssonar lögfræðings sem sendi frá sér bókina Friður og stríð: hafsjór af tilvitnunum fyrr á árinu.
Jón Ögmundur mun segja frá gerð bókarinnar, sem hefur að geyma fimmtán hundruð tilvitnanir um frið og stríð frá ýmsum tímum og löndum.
Vinna við bókina hefur staðið yfir í rúma þrjá áratugi meðfram annarri vinnu en höfundur hennar starfaði lengst af sem skrifstofustjóri í Viðskiptaráðuneytinu.
Í verkum Halldórs Laxness má finna töluverðan fjölda tilvitnana um stríð og frið enda koma stríðstímar við sögu í mörgum þeirra. Skáldsagan Gerpla er lesendum Halldórs eflaust ofarlega í huga í þessu sambandi en í henni er m.a. deilt á stríð og þau tortímingaröfl sem þeim fylgja.
Fyrirlestur Jóns Ögmundar Þormóðssonar hefst klukkan 16.00 sunnudaginn 29. september. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.