Franskt með Leifi

27/07 2011

Grímur Helgason klarinettuleikari, Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari og Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari.

Næstkomandi sunnudag, þann 31. júlí, munu ljóðræn sveitasæla og litríkar myndir hrífa gesti Gljúfrasteins er þau Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari, Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari og Grímur Helgason klarinettuleikari koma fram á stofutónleikum.

Franskir tónar verða í hávegum hafðir en nokkrar íslenskar tónmyndir fá þó að fljóta með í tríói eftir Leif Þórarinsson. Á efnisskránni eru Pagodes úr Estampes fyrir píanó eftir Claude Debussy, Sonatine fyrir flautu og klarinett eftir André Jolivet, Sonate eftir Maurice Emmanuel og Largo Y Largo eftir Leif Þórarinsson.

Tónleikarnir hefjast klukkan 16.00 og aðgangseyrir er 1000 kr.  Verið velkomin!

 

Melkorka Ólafsdóttir lærði á flautu í Tónskóla Sigursveins, Tónlistarskóla Reykjavíkur og í Listaháskólanum. Hún stundaði framhaldsnám í flautuleik í Amsterdam, Haag, París og London. Hún var einn af stofnendum Kammersveitarinnar Ísafoldar og hefur hin síðari ár leikið með ýmsum öðrum tónlistarhópum, íslenskum sem erlendum, þ.á.m. Íslensku Óperunni, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput, Kammersveit Reykjavíkur, Rotterdam Fílharmóníunni og Concertgebouw hljómsveitinni í Hollandi. Hún hefur komið fram sem einleikari með Ungfóníu, Caput, Kammersveit Reykjavíkur og Flautukór Íslands og hreppti vorið 2010 fjórðu verðlaun í hinni alþjóðlegu Carl Nielsen tónlistarkeppni í Óðinsvéum í Danmörku. Melkorka hefur leikið einleik með SÍ í tvígang og spilar verk Toru Takemitsu: I hear the water dreaming með SÍ og Ilan Volkov í Hörpu þann 29. september næstkomandi. Melkorka hlaut nýverið stöðu sem flautuleikari í Hyogo Performing Arts Center Orchestra í Japan og hefur störf þar í haust.

Hrönn Þráinsdóttir nam píanóleik við Tónmenntaskólann í Reykjavík og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Frá tónlistarháskólanum í Freiburg lauk hún svo Diploma kennaraprófi með ljóðasöngsmeðleik sem aukafag vorið 2004. Að því loknu stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Stuttgart þar sem hún lauk sumarið 2007 sérhæfðu Diploma námi við ljóðasöngdeild skólans. Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða, m.a. í Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu,Grænlandi og á Íslandi sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar. Hún hefur tekið þátt í ýmsum hátíðum eins og Ung Nordisk Musik,Við Djúpið á Ísafirði og var píanisti hátíðarinnar Berjadaga á Ólafsfirði sumarið 2010. Hún hefur verið meðlimur kammersveitarinnar Ísafoldar frá árinu 2004 en sveitin hlaut íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins fyrir árið 2007. Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík og við Tónlistarskólann í Reykjavík

Grímur Helgason nam klarinettuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík, í Listaháskóla Íslands og í Conservatorium van Amsterdam, en þaðan lauk Grímur námi nú í vor. Grímur hefur þrisvar komið fram sem einleikari með hljómsveit, m.a með Sinfóníuhljómsveit Íslands veturinn 2007. Sama ár hlaut hann styrk úr minningarsjóði Halldórs Hansen. Grímur hefur á undanförnum árum leikið með margskonar samleikshópum á Íslandi og í Hollandi, má þar nefna Kammersveitina Ísafold, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Het Ligeti Academy. Grímur er einn stofnenda tónlistarhátíðarinnar Bergmáls á Dalvík sem haldin verður í annað sinn nú í sumar. Grímur hefur einnig leikið á vetvangi dægurtónlistar, m.a. með hljómsveitinni Hjaltalín og Sigríði Thorlacius og Heiðurspiltum.