Hlín Pétursdóttir Behrens, Pamela de Sensi og Eva Þyri Hilmarsdóttir flytja franska og íslenska tónlist fyrir sópran, flautu og píanó á stofutónleikum sunnudaginn 2. ágúst. Á efnisskránni er tónlist eftir André Previn, Cécile Cheminade, Maurice Ravel, André Caplet, Lili Boulanger auk laga Jóhanns G. Jóhannssonar við ljóð Halldórs Laxness.
Hlín Pétursdóttir Behrens lauk einsöngvaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1992 og stundaði síðan framhaldsnám við óperudeild tónlistarháskólans í Hamborg. Hún hefur sungið í óperuhúsum víðsvegar í Þýskalandi, Austurríki, Sviss, Frakklandi og Svíðþjóð. Í dag kennir Hlín við Tónlistarskólann í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og söngskóla Sigurðar Demetz auk þess að koma reglulega fram hér heima og í Þýskalandi.
Pamela de Sensi lauk lokaprófi á flautu á Ítalíu 1998 og sérhæfði sig í Kammertónlist frá Tónlistarháskólanum í S. Cecilia í Róm. Hún fluttist til Íslands árið 2003 og hefur starfað sem flautukennari í Reykjavík, Kópavogi og á Selfossi. Auk þess starfaði hún sem framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti árin 2010-2013. Árið 2009 stofnaði Pamela tónleikaröð fyrir börn í Salnum í Kópavogi sem kallast Töfrahurð og hefur síðan þá staðið fyrir um 60 tónleikum.
Eva Þyri Hilmarsdóttir lauk píanókennaraprófi og burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar diplómaprófi og einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Árósum í Danmörku. Hún stundaði MA nám í meðleik við The Royal Academy of Music í London og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn og verðlaun fyrir framúrskarandi lokatónleika. Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri komið fram sem einleikari með hljómsveit og tekið þátt í frumflutningi verka , m.a. á hátíðunum Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín og Young Composers Symposium í London.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.