Franskt fínerí á Gljúfrasteini

28/07 2015

Eva Þyri Hilmarsdóttir, Hlín Pétursdóttir Behrens og Pamela de Sensi

Hlín Pétursdóttir Behrens, Pamela de Sensi og Eva Þyri Hilmarsdóttir flytja franska og íslenska tónlist fyrir sópran, flautu og píanó á stofutónleikum sunnudaginn 2. ágúst. Á efnisskránni er tónlist eftir André Previn, Cécile Cheminade, Maurice Ravel, André Caplet, Lili Boulanger auk laga Jóhanns G. Jóhannssonar við ljóð Halldórs Laxness.

Hlín Pétursdóttir Behrens lauk einsöngvaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1992 og stundaði síðan framhaldsnám við óperudeild tónlistarháskólans í Hamborg. Hún hefur sungið í óperuhúsum víðsvegar í Þýskalandi, Austurríki, Sviss, Frakklandi og Svíðþjóð. Í dag kennir Hlín við Tónlistarskólann í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og söngskóla Sigurðar Demetz auk þess að koma reglulega fram hér heima og í Þýskalandi.

Pamela de Sensi lauk lokaprófi á flautu á Ítalíu 1998 og sérhæfði sig í Kammertónlist frá Tónlistarháskólanum í S. Cecilia í Róm. Hún fluttist til Íslands árið 2003 og hefur starfað sem flautukennari í Reykjavík, Kópavogi og á Selfossi. Auk þess starfaði hún sem framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti árin 2010-2013. Árið 2009 stofnaði Pamela tónleikaröð fyrir börn í Salnum í Kópavogi sem kallast Töfrahurð og hefur síðan þá staðið fyrir um 60 tónleikum.

Eva Þyri Hilmarsdóttir lauk píanókennaraprófi og burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar diplómaprófi og einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Árósum í Danmörku. Hún stundaði MA nám í meðleik við The Royal Academy of Music í London og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn og verðlaun fyrir framúrskarandi lokatónleika. Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri komið fram sem einleikari með hljómsveit og tekið þátt í frumflutningi verka , m.a. á hátíðunum Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín og Young Composers Symposium í London.

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.

Dagskrá stofutónleika Gljúfrasteins í heild sinni