Mosfellingarnir í Tindatríóinu, feðgarnir Bjarni Atlason, Guðlaugur Atlason, Atli Guðlaugsson ásamt Arnhildi Valgarðsdóttur píanóleikara flytja íslensk lög af fjörugri gerðinni á fyrstu stofutónleikum sumarsins sunnudaginn 7. júní kl. 16:00
Tindatríóið er sönghópur sem samanstendur af þeim Atla Guðlaugssyni, Bjarna Atlasyni og Guðlaugi Atlasyni. Tríóið hóf samstarf í nóvember 2003 og hefur komið víða fram síðan m.a. ásamt Sveini Arnari Sæmundssyni organista og píanóleikara en að þessu sinni leikur Arnhildur Valgarðsdóttir með tríóinu.
Á efnisskrá tónleikanna verða íslensk lög, m.a. eftir Sigvalda Kaldalóns, Sigfús Halldórsson, Jón Ásgeirsson og Braga Valdimar Skúlason. Ljóðin eru m.a. eftir Halldór Laxness, Jón frá Ljárskógum, Stephan G. Stephensson og Valdimar Hólm Hallstað.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur. Hér má nálgast dagskrá stofutónleikaraðarinnar 2015.