Sýning um Auði á Gljúfrasteini opnar þann 22. ágúst nk. Í Listasal Mosfellsbæjar. Þessi sýning markar ákveðin tímamót í sögu safnsins því í fyrsta sinn er saga Auðar sögð í formi sýningar. Undirtitill sýningarinnar „Fín frú, sendill og allt þar á milli“ er tilvísun í þau mörgu hlutverk sem Auður á Gljúfrasteini gegndi.
Sýningin er einskonar innsetning þar sem gefur að líta verk Auðar, munstur eftir hana, ljósmyndir, hljóðmyndir og gripi sem tengjast minningum um Auði. Fjölmargir hafa komið að undirbúningi sýningarinnar sem byggir á meistararitgerð Mörtu Guðrúnar Jóhannesdóttur í safnafræði. Fjölskylda og nánustu ættingar Auðar hafa lagt til gripi og textabrot. Þannig eru sagðar margar, skemmtilegar og ólíkar sögur um húsfreyjuna á Gljúfrasteini.
Nú í haust eru tíu ár frá því að Gljúfrasteinn opnaði formlega sem safn. Það var að frumkvæði Auðar og hennar nánustu að gengið var frá undirritun samnings 23. apríl 2002 um sölu á Gljúfrasteini og þeim listaverkum sem prýða húsið. Við sama tækifæri var undirritað gjafabréf þar sem Auður gefur ríkinu bókasafn og handrit Halldórs Laxness auk innbúsins á Gljúfrasteini. Gjöfin var ómetanleg og höfðingleg.
Sýningarteymið skipa Guðný Dóra Gestsdóttir safnstjóri Gljúfrasteins, Marta Guðrún Jóhannesdóttir safnafræðingur og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir sýningarhönnuður.
Í tenslum við sýninguna um Auði voru unnir þrír útvarpsþættir sem fluttir voru á Rúv og eru aðgengilegir í hlaðvarpinu. Þá er gefin út vegleg sýningarskrá auk þess sem sérstakt svæði á vef Gljúfrasteins verður tileinkað Auði.
Sýningin stendur frá 22. ágúst – 28. september í Listasal Mosfellsbæjar, Þverholti 2, Mosfellsbæ. Aðgangur er ókeypis og er opið sem hér segir:
Mánudaga og þriðjudaga frá kl. 12 – 18
Miðvikudaga frá kl. 10– 18
Fimmtudaga og föstudaga frá kl. 12 – 18
Laugardaga frá kl. 12 – 17
Lokað er á sunnudögum nema 31. ágúst og 28. september.
Í tengslum við sýninguna verða skipulagðir sérstakir viðburðir og boðið upp á leiðsögn á auglýstum tímum.