Berglind María Tómasdóttir þverflautuleikari flytur tónlist eftir Toru Takemitsu, Þorkel Sigurbjörnsson, Giacinto Scelsi, Elvis Presley/George Poulton/Ken Darby og Georg Philipp Telemann á stofutónleikum Gljúfrasteins næstkomandi sunnudag.
Berglind María hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík, Bang on a Can maraþoninu í San Francisco, Sumartónleikum í Skálholtskirkju, Myrkum músíkdögum, í CMMAS tölvutónlistarsetrinu í Morelia Mexíkó og í REDCAT í Los Angeles svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Nýlega hafa verk eftir hana verið pöntuð af og flutt á Myrkum músíkdögum, San Diego Museum of Art og á árlegri ráðstefnu Bandarísku flautusamtakanna. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Hún lauk nýverið doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.