Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir sellóleikari kemur fram á stofutónleikum Gljúfrasteins næstkomandi sunnudag þar sem hún mun flytja tónverk eftir færeysk tónskáld. Gunnhildur hefur starfað með Færeyingum við sköpun nýrra tónverka fyrir selló og hefur fylgst með því ötula starfi sem þar er unnið við að viðhalda ríku tónlistarlífi og að koma samtímatónlist á framfæri. Það hefur haft áhrif á hana og hvatt hana til að deila afrakstrinum sem víðast.
Tónleikarnir hefjast kl. 16.00 og aðgangseyrir eru 1000 krónur. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Hér má finna dagskrá stofutónleikanna fyrir sumarið 2013
Um flytjandann:
Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir flutti til Íslands 2011 eftir 26 ára nær samfellda búsetu erlendis. Á þessum 26 árum dvaldist hún aðeins eitt ár á Íslandi þegar hún lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1992-1993. Hún hefur dvalið við nám eða störf í Frakklandi, Danmörku, Ísrael og nú síðast í Svíþjóð. Þar bjó hún í 16 ár og starfaði meðal annars við Háskólann í Uppsölum og var leiðandi sellóleikari í kammersveitinni Camerata Upsaliae. Á námsárum sínum kom Gunnhildur víða við og hafa kennarar hennar meðal annars verið Lovísa Fjeldsted, Gunnar Kvaran, Erling Blöndal Bengtsson, Torleif Thedeen, William Pleeth og Uzi Wiesel.
Gunnhildur hefur lagt áherslu á að leika samtímatónlist bæði í kammerhópum og sem einleikari. Hún hefur í gegnum árin frumflutt ótal verka. Hin síðari ár hefur hún frumflutt verk eftir tónskáld einsog Daniel Galay, Mikael Sjögren, Staffan Storm, Erik Mogensen, Hafdísi Bjarnadóttur og Hafliða Hallgrímsson sem einleikari eða í strengjadúóinu Duo Rima. Þess utan hefur hún flutt mikið af ísraelskum klassískum verkum í samvinnu við þýska píanóleikarann Julian Riem og í mörgum tilfellum verið fyrst til að flytja verkin utan Ísrael.
Núna kennir Gunnhildur við Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskóla Álftaness, Tónskóla Eddu Borg og Suzukitónlistarskólann í Reykjavík auk þess sem hún starfar reglulega með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og tekur þátt í mörgum öðrum verkefnum einsog til dæmis uppfærslu Borgarleikhússins á Mary Poppins.
Um tónskáldin, verkin og tilurð þeirra:
Sunleif Rasmussen (1961) hóf tónlistarferil sinn í Þórshöfn sem alhliða tónlistarmaður eftir stutt píanónám í Noregi. Eftir kynni við Atla Heimi Sveinsson ákvað hann að gerast tónskáld og hóf nám við Konunglega Tónlistarskólann í Kaupmannahöfn. Hann er fyrsta tónskáld Færeyinga með próf í tónsmíðum og hefur hlotið margar viðurkenningar. Fyrsta sinfónían hans Oceanic Days var frumflutt í Færeyjum af Sinfóníuhljómsveit Íslands í mars 2000. Ávaringar er upphaflega skrifað fyrir selló og píanó en umskrifað fyrir einleiksselló og flutti Gunnhildur það í þeirri mynd á Summartónum 2001. Seinna bætti Sunleif við verkið og þannig flutti Gunnhildur það á Summartónum 2007. Á þessum tónleikum heyrum við fyrstu og styttri útgáfu þessa verks fyrir einleiksselló.
Kristian Blak (1947) er í listsköpun sinni undir áhrifum margra stíltegunda auk hinnar hefðbundnu evrópsku tónlistarhefðar. Áhrifa gætir frá þjóðlagatónlist og auk þess vinnur hann gjarnan með sköpunarform sem byggir á sjónrænum áhrifum. Í verkinu Landslag fyrir einleiksselló sækir hann þannig efnivið og form í útlínur eða landslag. Þarna er sjóndeildarhringurinn einsog hann lítur út frá bænum Mykines, allt frá lágum klettum í suðri til hárra fjalla í norðri. Verkið er skrifað 2001 og tileinkað Gunnhildi Höllu.
Edvard Nyholm Debess (1960) er fæddur í Þórshöfn og tók frá unga aldri þátt í tónlistarlífinu þar. Hann stundaði nám í kontrabassaleik, bæði í klassískri tónlist og svo jazz- og ryþmatónlist. Hann hefur samið fjölbreytileg tónverk fyrir kammersveit og hljómsveit. Auk þess hefur hann samið þrjú einleiksverk, fyrir klarinett, fiðlu og selló. Edvard samdi verkið Up sa la music árið 2001 og bjó Gunnhildur þá í Uppsölum. Einsog titilllinn ber með sér þá takast á gáski og alvara í gegnum meira og minna allt verkið og er það hlustandans að lokum að dæma um hvort það er gáskinn eða alvaran sem hefur yfirhöndina.
Gunnhildur hefur heimsótt Færeyjar reglulega frá árinu 1992 og spilað við sumarhátíðina þeirra Summartónar bæði sem einleikari og í ólíkum kammerhópum og sveitum. Árið 1999 kom Kristian Blak að máli við Gunnhildi á vegum Tónskáldafélags Færeyja hvort hún væri ekki til í að halda námskeið um hvernig hægt er að skrifa fyrir selló. Varð úr að í desember 2000 fór hún til Færeyja, hélt einleikstónleika með samtímatónlist í Listaskálanum og í beinu framhaldi af því, námskeið fyrir tónskáldin. Voru ræddar hugmyndir og ólíkar leiðir til að koma þeim á framfæri og auk þess hvaða möguleikar væru í sjálfri nótnaskriftinni. Sumarið 2001 voru svo frumflutt fleiri ný verk eftir tónskáld einsog Trónd Bogason, Atla Pedersen og Kristian Blak auk annarra. Þessi samvinna leiddi og til að fjöldi færeyskra verka fyrir eða með sellói meira en fjórfaldaðist. Landið og það ötula starf sem unnið er í Færeyjum við að viðhalda ríku tónlistarlífi og koma samtímatónlist á framfæri hefur heillað Gunnhildi og haft sterk áhrif á hana sjálfa sem flytjanda. Þess vegna er það henni hugleikið að leika þessi færeysku tónverk.