Erlingur E. Halldórsson hlýtur Íslensku þýðendaverðlaunin 2011

30/04 2011

Erlingur E. Halldórsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2011 fyrir þýðingu sína á Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante Alighieri.

Erlingur E. Halldórsson hlaut í dag Íslensku þýðingaverðlaunin við hátíðlega athöfn á Gljúfrasteini. Verðlaunin hlaut hann fyrir þýðingu sína á Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante Alighieri.

Fjórir aðrir þýðendur voru tilnefndir til verðlaunanna að þessu sinni:

Atli Magnússon var tilnefndur fyrir Silas Marner eftir George Eliot, Njörður P. Njarðvík fyrir Vetrarbraut eftir Kjell Espmark, Óskar Árni Óskarsson fyrir Kaffihús tregans eftir Carson McCullers og Þórarinn Eldjárn fyrir Lé konung eftir William Shakespeare.

Verðlaununum fylgja 400.000 kr. sem Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda leggja til.

Í dómnefnd um Íslensku þýðingaverðlaunin 2011 sátu Kristján Árnason, formaður, Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir og Steinunn Inga Óttarsdóttir


Dómnefndarálit:

Erlingur E. Halldórsson (f. 1930) fékkst fyrr á árum einkum við leikstjórn og leikritagerð en hefur í seinni tíð snúið sér æ meir að þýðingum sígildra meistaraverka frá fornöld og síðmiðöldum og sent frá sér þýðingar á verkum eftir höfunda á borð við Rabelais, Petróníus, Apúleius, Boccaccio og Chaucer. Fyrir þýðingu sína á Gargantúa og Pantagrúl eftir Rabelais hlaut hann Heiðursverðlaun frönsku Akademíunnar árið 1993.

Nú hefur þýðing hans á Gleðileik Dantes, Divina Commedia, bæst í hópinn, og er það mikill fengur og fagnaðarefni íslenskum lesendum að eignast loks þetta mikla öndvegisverk vestrænna bókmennta á íslensku í heild sinni, og má segja að þar hafi þýðandinn unnið þrekvirki. Verkið leiðir lesandann inn í hugarheim miðalda og lýsir leiðsluferð skáldsins um handanheima þar sem birtast ýmis stig mannlegrar reynslu, allt neðan frá dýpsta víti illsku og kvala til uppheima ljóss og sælu.

Á frummálinu er Gleðileikurinn kveðinn undir svonefndum tersínahætti með þríteknu rími, sem knýr frásögnina áfram, en nákvæm lausamálsþýðing Erlings nær þó á sinn hátt með kjarnmiklu, en stundum nokkuð sérviskulegu orðfæri að gera ferðalýsinguna ljóslifandi, jafnt innra sem ytra, og miðla lesanda af þeirri óvenjulegu reynslu sem þar er lýst.  Sem dæmi má hér taka lýsingu á sterkum hughrifum skáldsins er það hittir sína fornu ástmey Beatrísi þar sem heitir hin jarðneska Paradís á tindi Hreinsunarfjalls:

„Og andi minn, sem hafði ekki í svo langan tíma verið nær því að bugast af lotningu, sem fékk mig til að skjálfa í návist hennar, jafnvel þótt ég gæti ekki séð hana með augunum, fann í gegnum dulinn kraftinn sem flæddi frá henni hinn yfirgengilega kraft minnar fornu ástar.

Jafnskjótt og þessi máttugi kraftur, sem hafði gagntekið mig einu sinni, áður en ég var fullvaxta, laust augu mín, sneri ég til vinstri af trúnaðartrausti barns sem hleypur til mömmu sinnar, af því það er hrætt eða í vanda, og sagði við Virgil: „Ekki er eftir í mér blóðdropi sem fer ekki að skjálfa; ég kannast við merki gamla blossans.”

Erlingi tekst oft vel upp við líkingar sem eru margar hjá Dante og yfirleitt glæsilegar þar sem myndmáli er beitt til að útskýra líðan, áhrif eða tilfinningar, svo sem á blaðsíðu 309 þar sem skáldið segir, statt á himni Merkúrs: „Eins og í fiskitjörn, tærri og lygnri, þegar fiskurinn dregst að molum sem detta í ljósmálið, og trúir að það sé fæða honum til handa, þannig sá ég meira en þúsund dýrðarljóma færast okkur nær, og í hverjum heyrði ég: „Sjá, einhver kemur sem eflir vora ást!” Og þegar þeir komu til okkar hver og einn, sáum við hvern skugga fullan af fjöri, svo björt var glóðin sem lýsti hið innra.”

Við skulum að lokum fagna því að hið mikla verk Dantes, með þeirri birtu er frá því stafar, skuli nú hafa náð fótfestu og öðlast þegnrétt hér á landi með hinni nýju og glæsilegu þýðingu Erlings E. Halldórssonar.