Engin lognmolla á Gljúfrasteini

23/05 2012

Setið í lautinni. Gönguhópur í leiðsögn Péturs Ármannssonar 6. maí 2012

Í apríl og byrjun maí var ýmislegt gert til hátíðabrigða vegna 110 ára fæðingarafmælis Halldórs Laxness. Kvikmyndahátíðin Laxness í lifandi myndum gekk vel í Bíó Paradís. Gönguferðir í fótspor skáldsins bæði í Reykjavík og Mosfellsdalnum voru vel sóttar og það var góð stemmning á útgáfutónleikum Tómasar R. á Gljúfrasteini. Sýningin Bernska skálds í byrjun aldar er enn í fullum gangi og verður í Þjóðarbókhlöðunni fram í september.

Það er heldur engin lognmolla framundan. Í sumar verða stofutónleikar alla sunnudaga klukkan 16 en þetta er sjöunda stofutónleikaröðin. Það eru Sunna Gunnlaugs píanóleikari, Þorgrímur Jónsson á kontrabassa og Scott McLemore á trommur sem ætla að ríða á vaðið sunnudaginn 3. júní og spila jazz af plötunni Long Pair Bond sem kom út í nóvember síðastliðnum.

Heildardagskrá stofutónleika 2012

Mosfellsdalurinn er farinn að skarta sínu fegursta og nú er upplagt að draga fram gönguskóna og fá sér göngu og skoða svo safnið. Starfsfólk Gljúfrasteins veitir fúslega upplýsingar um skemmtilegar gönguleiðir í nágrenninu. Eftir safnaheimsókn og útiveru geta kaffiþyrstir skellt sér á kaffihúsið á Álafossi, Mosfellsbakarí eða til dæmis Hvíta Riddarann.