Í fyrirlestri Jóns Yngva Jóhannssonar sunnudaginn 26. febrúar klukkan 16 verður fjallað um samskipti Gunnars Gunnarssonar og Halldórs Laxness. Þeirra samskipti eru sett í samhengi íslenskrar bókmennta- og menningarsögu með áherslu á uppgjör Gunnars og óuppgerðar sakir við ævilok.
Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness voru ólíkir höfundar – og ólíkir menn. Þegar Halldór var ungur höfundur að stíga sín fyrstu skref leitaði hann til Gunnars eftir aðstoð við að koma verkum sínum á framfæri í Danmörku. Gunnar brást vel við, útvegaði Halldóri útgáfusamning og þýddi Sölku Völku. Með þeim tókst góð vinátta og seinna launaði Halldór Gunnari greiðann með því að þýða verk hans á íslensku.
Eftir því sem árin liðu varð margt til þess að vík myndaðist milli vinanna Halldórs og Gunnars þótt virðing þeirra fyrir verkum hvor annars héldist óskert. Kalda stríðið og óhjákvæmilegur metingur milli skálda varð til þess að þeir fjarlægðust hvor annan. Undir lok ævi Gunnars þótti honum nauðsynlegt að gera upp sakirnar við sinn gamla vin. Þá skrifaði hann langa uppgjörsgrein sem aldrei hefur birst á prenti.
Fyrirlesturinn er liður í Verki mánaðarins sem í vetur er í samstarfi við Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Ferðafélagar“. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.