Vegna óviðráðanlegra orsaka mun Kristinn Sigmundsson ekki koma fram á stofutónleikum Gljúfrasteins næstkomandi sunnudag. Hin góðkunna Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, hleypur í hans skarð og syngur við undirleik Jónasar. Þau munu flytja verk sem samin hafa verið við ljóð Halldórs Laxness. Þau eru eftir Þórarin Guðmundsson, Jón Nordal, Jón Ásgeirsson, Jakob Hallgrímsson og Gunnar Reyni Sveinsson.
Tónleikadagskrá og tímasetning er enn óbreytt og er gestum bent á að hægt sé að panta miða fyrirfram í síma 586-8066 eða með því að senda tölvupóst á netfangið gljúfrasteinn@gljufrasteinn.is. Tónleikarnir hefjast klukkan 16.00 og aðgangseyrir er 1000 kr.
Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú
Sigrún Hjálmtýsdóttir hóf feril sinn á sviði dægurtónlistar. Síðar hóf hún sígilt söngnám við Guildhall School of Music and and Drama í London og stundaði.framhaldsnám á Ítalíu. Hún hefur tekið þátt í margvíslegum uppfærslum, jafnt á sviði sem og í kvikmyndum. Frumraun sína á óperusviði þreytti hún í hlutverki dúkkunnar Olympíu í “Ævintýri Hoffmanns”. Önnur verkefni hennar hjá Íslensku Óperunni eru hlutverk: Súsönnu í “Brúðkaupi Fígarós”, Gildu í Rigólettó”, Lúsíu í “Lucia di Lammermoor”, Papagenu og Næturdrottningarinnar í “Töfraflautinni”, Víolettu í”La Traviata”, Adínu í “Ástardrykknum, Rósalindu í “Leðurblökunni” Freyju, Helmwige og Skógarfuglinn í uppfærslu á “Niflungahringnum” sem fluttur var á Listahátíð í Reykjavík og hlutverk Katie í “Le Pays” sem einnig var flutt á Listahátíð.
Sigrún Söng hlutverk Næturdrottningarinnar í “Töfraflautunni” haustið 2011 og var það fyrsta uppfærsla Íslensku Óperunnar í Hörpu. Hún var valin söngkona ársins 2011 fyrir það hlutverk. Sigrún hefur á löngum ferli margoft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem og erlendum hljómsveitum víða um heim. Með S.Í. hefur hún hljóðritað fjórar einsöngsplötur, en alls hefur hún sungið inná marga tugi platna gegnum árin. Hún söng á eftirminnilegum tónleikum í Laugardalshöll með José Carreras og steig á stokk með Placido Domingo á tónleikum hans í Egilshöll.
Sigrún hefur haldið tónleika víða um heim, t.d. í Kína hvar hún hélt tónleika í Egginu í Peking ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, hún hefur sungið í Japan, Kanada, U.S.A., Rússlandi, Balkanlöndunum, Norðurlöndunum, Frakklandi, Ítalíu, Slóveníu, Austurríki og Tékklandi. Árið 1995 var Sigrún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu og árið 1997 Ljónaorðu Finnska ríkisins.
Framundan hjá Diddú er tónleikaferð til St. Louis í Usa í júlí og í september til Moskvu og Pétursborgar.
Jónas Ingimundarson
Jónas Ingimundarson stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Jónas hefur síðan starfað sem píanóleikari, tónlistarkennari og kórstjóri. Hann hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og komið fram víða í Evrópu og í Bandaríkjunum ýmist einn eða með öðrum, einkum söngvurum, má þar nefna áratuga samstarf með Kristni Sigmundssyni. Jónas hefur leikið inn á fjölda hljómplatna og hljómdiska og hefur staðið fyrir öflugu tónlistarkynningarstarfi í tengslum við tónleikahald sitt. Jónas hefur fengið listamannalaun og notið starfslauna listamanna og er í heiðurslaunaflokki Alþingis. Jónas hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og heiðursverðlaun fyrir störf sín. Árið 2004 kom út bókin “Á vængjum söngsins” um ævi og störf Jónasar skráð af Gylfa Gröndal. Jónas var útnefndur “Steinway artist” af Steinway og Sons, Hamborg 2006 og var gerður að heiðursborgara Kópavogs 2011. - frekari upplýsingar má sjá á http://jonasingimundarson.com/.