Dagur íslenskrar tungu er í dag

16/11 2020

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur þann 16. nóvember ár hvert, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember.

Halldór Laxness átti það til að nota skrýtin og skemmtileg orð í textum sínum. Hér fyrir neðan eru nokkur textabrot úr greinum skáldsins og útskýringar á orðum.
 

hermdargjöf, kraðak

Vér Íslendingar höfum nú einusinni hlotið þessa hermdargjöf, hið íslenska mál, og það er dýrlegasta menníngarverðmætið sem vér eigum, og ef vér viljum ekki gera eitthvað fyrir snillínga þess, þá eigum vér að flytja héðan burt – alt kraðakið einsog það leggur sig – og það strax á morgun. Vér eigum að fara til Mexíkó og fara að tala spænsku.

Af menníngarástandi. Erindi um menníngarmál. 1926.

apaspil; glenniverk

...get ég ekki stilt mig um að ítreka að raflýsíng sveitanna án samfærslu bygðanna er svo glórulaus fjarstæða og barnaskapur, að eingum hefur getað dottið í hug að bera slíkt fram nema einhverjum apaspilum úr afturhaldsflokkinum hér. Ber auðvitað ekki að skoða slíka vitleysu öðruvísi en hégómlegt glenniverk framaní kjósendur.

Af menníngarástandi. „Samyrkjabygðir“. 1930.

Rexa

Það er rexað árum saman í únglíngum skólanna útaf y og z, tvöföldum samhljóða og kommusetníngu í stað raunhæfrar lífrænnar ástundunar á auðæfum túngunnar, enda árángurinn sá að menn útskrifast ósendibréfsfærir vegna orðfæðar úr skólum þessum, óhæfir til að láta í ljós hugsanir sínar svo mynd sé á í rituðu máli, hrokafullir reglugikkir sem bera lítið skynbragð á stíl og mál ...

Vettvángur dagsins. Málið. 1941.

 

Orðskýringar
 

hermdargjöf

kvk. Slæm gjöf, gjöf er verður til tjóns, hefndargjöf, bjarnargreiði

kraðak

hk. fjöldi e-s, grúi, mor, mergð (og þrengsli)

apaspil

apaspil: no.hk fífl EÐA flónslæti, ólíkindalæti. Orðið api no.kk er gamalt farandorð og tæpast af indóevrópskum uppruna, en hefur líklegast borist inn í norræn mál úr fornensku eða fornsaxnesku. Orðið spil no.hk er frá fimmtándu öld og er af óvissum uppruna, en upphafleg merking þess virðist helst vera snögg eða iðandi hreyfing.

glenniverk

glenniverk: no.hk það að halda dyrum eða gluggum lengi opnum EÐA að glenna sig EÐA gleiðgosi, gaprildi, gála, sá sem er sífellt að glenna sig í framan. Upphafleg merking orðsins glenna no.kvk er rifa, klof, skýjarof EÐA andlitsfettur, brella, grikkur. Sagnorðið að glenna merkir að opna, teygja í sundur EÐA að skæla sig, að ybba sig.

rexa

rekast í, skipta sér af EÐA deila, pexa, þrátta