Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur á morgun 16. nóvember, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Í tilefni dagsins er ókeypis að Gljúfrasteini.
Halldór Laxness átti það til að nota skrýtin og skemmtileg orð í textum sínum. Hér fyrir neðan eru nokkur textabrot úr greinum skáldsins og útskýringar á orðum.
Orðskrípi
... Í augum rithöfundar eru ekki til önnur orðskrípi en þau sem fara illa í tilteknu sambandi – og það er yfirleitt ekki hægt að verða rithöfundur fyren maður er vaxinn uppúr þeirri hugmynd að til séu orðskrípi. Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað ... Þannig eru orð til í bókum, sem aðeins eiga heima á einum stað, í einu sambandi og síðan hvergi framar.
Vettvángur dagsins. Málið. 1941.
hermdargjöf, kraðak
Vér Íslendingar höfum nú einusinni hlotið þessa hermdargjöf, hið íslenska mál, og það er dýrlegasta menníngarverðmætið sem vér eigum, og ef vér viljum ekki gera eitthvað fyrir snillínga þess, þá eigum vér að flytja héðan burt – alt kraðakið einsog það leggur sig – og það strax á morgun. Vér eigum að fara til Mexíkó og fara að tala spænsku.
Af menníngarástandi. Erindi um menníngarmál. 1926.
Rexa
Það er rexað árum saman í únglíngum skólanna útaf y og z, tvöföldum samhljóða og kommusetníngu í stað raunhæfrar lífrænnar ástundunar á auðæfum túngunnar, enda árángurinn sá að menn útskrifast ósendibréfsfærir vegna orðfæðar úr skólum þessum, óhæfir til að láta í ljós hugsanir sínar svo mynd sé á í rituðu máli, hrokafullir reglugikkir sem bera lítið skynbragð á stíl og mál ...
Vettvángur dagsins. Málið. 1941.
Fásinni
Maður sem lítt kann til saungs getur þótt fyrirtaks saungmaður í afskektu bygðarlagi þar sem fólki leiðist; menn eru þakklátir fyrir þá tilbreytíngu í fásinninu sem saungur hans kann að valda. En menn skyldu varast að halda að saungur þessa manns eigi heima á frægum veraldarsaungpalli. Ef maðurinn villist upp á slíkan pall, þá er saungur hans orðinn ömurlegt fyrirbæri og slys.
Dagur í senn. Ræða á listamannaþíngi 1950.
Útskýringar
orðskrípi
hk. ljótt orð, skrípislegt orð EÐA ókvæðisorð (fornt/úrelt)
hermdargjöf
kvk. Slæm gjöf, gjöf er verður til tjóns, hefndargjöf, bjarnargreiði
kraðak
hk. fjöldi e-s, grúi, mor, mergð (og þrengsli)
rexa
rekast í, skipta sér af EÐA deila, pexa, þrátta
fásinni
hk. einvera, einmanaleiki, þar sem fátt er manna