Chopin á síðustu stofutónleikum sumarsins

25/08 2010

Ástríður Alda Sigurðardóttir

Næsta sunnudag 29. ágúst klukkan 16 verða síðustu stofutónleikar sumarsins á Gljúfrasteini. Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari mun flytja verk eftir Chopin.

Ástríður Alda lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Önnu Þorgrímsdóttur. Á árunum 2000-2003 stundaði hún nám hjá Reiko Neriki við Indiana University - Jacobs School of Music, Bloomington þar sem hún lauk Artist Diploma. Ástríður hefur sótt fjöldann allan af námskeiðum og tímum í píanóleik og kammertónlist hjá listamönnum á borð við Geörgy Sebök, Ludwig Hoffmann, Janos Starker, Jürgen Schröder og Olaf Dressler. Til námsins hefur hún tvívegis fengið styrk úr minningarsjóði Birgis Einarssonar. Ástríður hefur komið víða fram á tónleikum, ýmist sem einleikari eða með öðrum tónlistarmönnum. 
Hún hefur komið fram sem einleikari með Internationales Jugendsinfonie-orchester Elbe-Weser í Þýskalandi, með Sinfóníuhljómsveit Íslands og með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Ástríður er meðlimur í kammerhópnum Elektra Ensemble og tangósveitinni Fimm í tangó. 2007 kom út diskurinn Aldarblik með söngvurunum Eyjólfi Eyjólfssyni og Ágústi Ólafssyni.

Aðgangseyrir er 1.000 krónur og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Vilt þú ganga í vinafélag Gljúfrasteins?

Tilgangur félagsins er að veita Gljúfrasteini stuðning og aðstoð og að efla vitund um arf Halldórs Laxness og mikilvægi hans. Félagar fá ýmis fríðindi á safninu.