Sjónvarpsmyndin Brekkukotsannáll frá árinu 1973 verður sýnd á RÚV í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn þann 8. nóvember kl 22:05 og sá seinni þann 15. nóvember kl. 21:45. Að lokinni sýningu fyrri hlutans er sýndur heimildarþáttur þar sem Halldór Laxness greinir frá skrifum Brekkukotsannáls, sýndar verða myndir frá tökustað myndarinnar og skyggnst á bakvið tjöldin.
Brekkukotsannáll kom út árið 1957. Sagan gerist í upphafi 20. aldar og er frásögn Álfgríms af afa og ömmu í Brekkukoti í Reykjavík og stórsöngvaranum Garðari Hólm.
Sjónvarpsmyndin var tekin upp á 16mm filmu í Reykjavík árið 1972. Ári síðar var hún frumsýmd allstaðar á Norðurlöndunum og í Þýskalandi, en ríkissjónvarpsstöðvar þessara landa framleiddu myndina. Myndin var sýnd í tveimur hlutum og í svarthvítu hjá Sjónvarpinu á sínum tíma. Björn G. Björnsson skrifaði skemmtilega samantekt á framleiðsluferli myndarinnar sem hægt er að lesa hér á síðunni. Grein Björns, Sumarið '72.
Leikstjórn og handrit voru í höndum Rolf Hädrich. Helstu leikarar eru Jón Laxdal, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Þorsteinn Ö. Stephensen, Nikulás Þorvarðsson, Regína Þórðardóttir, Róbert Arnfinnsson og Árni Árnason.
Frumeintaki myndarinnar var óvart fargað og myndbandstæknin mátti sín lítils í baráttunni við tímans tönn. Útgáfan sem sýnd verður nú er unnin í tölvu upp úr nokkrum eintökum myndarinnar. Rispur og ónýtir rammar hafa verið fjarlægðir og myndin eindurlitgreind.
Vinna við lagfæringu myndarinnar var í höndum Halldórs Þorgerissonar og Eggerts Baldvissonar með aðstoð Kvikmyndasafns Íslands.
Fyrir þá sem misstu af Sölku Völku í síðustu viku er ennþá hægt að horfa á hana í Sarpinum.