Sannkölluð bókmenntavika er hafin en í gær mánudag var heimsþing PEN International– alþjóðasamtaka rithöfunda, útgefenda og blaðamanna sem standa vörð um tjáningarfrelsið – sett í Reykjavík. Þátttakendur frá yfir sjötíu þjóðlöndum taka þátt í ráðstefnunni og sækja um tvö hundruð rithöfundar og blaðamenn þingið. Áhugasömum lesendum gefst tækifæri til að sjá og heyra rithöfunda víða að á meðan á heimsþinginu stendur en í dag þriðjudag verða upplestrar í Allance Française þar sem frönskumælandi rithöfundar koma fram og á Loft hostel þar sem höfundar frá Víetnam, Egyptalandi og Kólumbíu verða meðal gesta.
Það er við hæfi að minnast þess að Halldór Laxness var sjálfur virkur meðlimur í PEN samtökunum sem stofnað var til árið 1921 og eru þau elstu mannréttindasamtök heims.
Samtímis er Bókmenntahátíð í Reykjavík haldin en PEN International og Bókmenntahátíð standa að þessu sinni fyrir sameiginlegri dagskrá.
Meðal bókmenntaviðburða vikunnar er einnig málþingið Ferðast á slóðum bókmennta sem hefst kl. 8:30 miðvikudaginn 11. september í IÐNÓ. Þeir sem hafa áhuga á bókmenntum sem hreyfiafli og sambandi þeirra við ferðaþjónustu er sérstaklega bent á málþingið en opnunarávarpið flytur Dr. Hans Christian Andersen prófessor við háskólann í Northumbria í Englandi og ber það titilinn „Áfangastaðir og aðdráttarafl: Þegar bókmenntir hreyfa við fólki.“ Málþingið er haldið í samvinnu við Bókmenntahátíð í Reykjavík og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO.