Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness afhent í Veröld-húsi Vigdísar

21/09 2019

Ian McEwan í stofunni á Gljúfrasteini 

Rithöfundar sem hjálpuðu okkur að skilja samfélagið betur
,,Í dag leiðum við saman tvo af meisturum bókmenntanna;  okkar eigin Halldór Laxness og Ian McEwan.“ Sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra í ræðu sinni í Veröld – húsi Vigdísar fimmtudaginn 19. september áður en hún afhenti McEwan alþjóðleg bókmenntaverðlaun, kennd við Halldór Laxness.  Katrín sagði að Halldór hefði verið, og McEwan væri, þátttakandi í samfélagsumræðunni og báðir óhræddir við að tjá skoðanir sínar á stjórnmálum og samtímanum án þess að taka beinan þátt í pólitík.  ,,Með því hjálpuðu þeir okkur hinum að skilja samfélagið betur og það er hugsanlega eitt mikilvægasta hlutverk hvers listamanns. Katrín talaði  líka um nýjustu bók McEwans sem kemur út í lok þessa mánaðar en hún ber heitið Cockroach eða Kakkalakkinn. Bókin er háðsádeila á bresk stjórnmál þar á meðal Brexit, ,,hún er um kakkalakka sem vaknar einn morguninn sem forsætisráðherra. Ég get ekki beðið eftir að spyrja forsætisráðherra Bretlands hvað honum finnist um þessa bók“ sagði Katrín Jakobsdóttir og uppskar hlátur í salnum.  

Lestur barnabóka mótaði McEwan sem rithöfund  
Ian McEwan sagði frá því í sinni ræðu að hann kæmi ekki frá bókelskri fjölskyldu og hafi því þurft að finna sér barnabækur á bókasafni án nokkurrar leiðsagnar. Hann hafi því ákveðið að best væri að lesa bækur eftir stafrófsröð titla þeirra. Og það hafi hann gert.  Lestur allra bókanna hafi mótað hann sem rithöfund. Til að mynda hafi það haft mikil áhrif á hann að átta sig á að hann væri ekki ódauðlegur. Það gerði hann þegar hann las barnabók sem lauk á þann veg að ein persónan dó.  
McEwan sagði einnig frá því að hann hafi verið sá fyrsti í stórfjölskyldunni, bæði móður sinnar megin og föður til að vera í skóla lengur en til 16 ára og sá fyrsti í fjölskyldunni til að fara menntaskóla og háskóla. Hann segir að foreldrar sínir hafi verið mjög stoltir af honum og jafnvel stundum gert of mikið úr gildi þess að ganga menntaveginn.

Aftengist netinu einu sinni á dag og skrifið niður hugsanir ykkar
Ian McEwan talaði um bókina Sjálfstætt fólk í lok þakkarræðunnar, sagði hana stórbrotið verk en að hann skilji ekki vegna Atómstöðin hafi ekki fengið meiri athygli í Bretlandi. Svo velti Ian McEwan því fyrir sér í lok þakkarræðunnar hvað Halldór Laxness myndi ráðleggja ungum rithöfundum í dag.  Hann sagði að á tímum hins ljúffenga og lokkandi veraldarvefs væri afar mikilvægt fyrir unga rithöfunda að aftengjast netinu einu sinni á dag, finna skjól og skrifa niður hugsanir sínar. ,,Ég vona að Halldór Laxness hefði ráðlagt ungum rithöfundum þetta líka.“ Sagði McEwan og lauk máli sínu á því að þakka Halldóri Laxness fyrir einsemdina, það væri hans tilfinning að Halldór hafi sótt mikið í einveru þegar hann var að skrifa og með henni auðgað líf okkar. En að hann hefði líka sýnt okkur hætturnar sem geta skapast ef við förum að telja okkur trú um að við getum lifað án annars fólks, ef við einangrum okkur of mikið og of lengi.   

Þetta er í fyrsta sinn sem alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness eru afhent en þau eru nú og verða annað hvert ár veitt erlendum rithöfundi fyrir endurnýjun sagnalistar. Næst verða þau afhent árið 2021.  

Verðlaunaafhendingin í Veröld

Ian McEwan þáði heimboð á Gljúfrastein daginn fyrir verðlaunaafhendinguna og tók hér á móti fjölmiðlafólki.  Hér eru tenglar á þrjú viðtöl við McEwan sem tekin voru í stofunni á Gljúfrasteini.
Rætt við McEwan í Kastljósi RÚV
Rætt við McEwan í Víðsjá á Rás 1 
Rætt við McEwan á mbl.is