Bókmenntaverðlaun Nóbels voru fyrst afhent árið 1901 samkvæmt leiðbeiningum sem sænski uppfinningamaðurinn Alfred Nobel lét eftir sig í erfðaskrá sinni en hann lést árið 1896. Þar kvað á um að hin gífurlegu auðæfi sem hann skildi eftir sig ætti að nota til þess að setja á stofn fimm verðlaun. Þessi verðlaun skyldu svo veitt þeim einstaklingum sem skarað hefðu fram úr á sínu sviði í eðlis-, efna-, læknisfræði, bókmenntum og friðarbaráttu. Árið 1969 var hagfræðiverðlaunum sænska seðlabankans í minningu Alfreds Nobel bætt við og eru þau veitt með hinum upprunalegu Nóbelsverðlaunum.
Halldór Laxness er eini Íslendingurinn sem hlotið hefur þessi eftirsóttu verðlaun, þó að fleiri Íslendingar hafi verið tilnefndir í gegnum tíðina. Halldór var fyrst tilnefndur árið 1948 og var eftir það tilnefndur á hverju ári þar til hann hlaut verðlaunin árið 1955. Hér má sjá myndband frá Nóbelsverðlaunahátíðinni í Stokkhólmi.
Orðan hefur verið eins frá upphafi og er hönnuð af Svíanum Erik Lindberg. Hún er úr gulli og framan á henni er mynd af Alfred Nobel. Aftan á orðunni er mynd af skáldi sem situr undir lárviðartré og listagyðju hans. Þar er grafið nafn verðlaunahafans auk áletruninnar Inventas vitam juvat excoluisse per artes. Þetta er tilvitnun í Eneasarkviðu Virgils sem lauslega þýtt merkir að listin bæti lífið.
Nóbelsskírteinið er sérhannað fyrir hvern og einn og það var listamaðurinn Bertha Svensson-Piehl sem hannaði skírteini Halldórs. Skírteini bókmenntaverðlaunahafans er prentað á pergament meðan hinir verðlaunahafarnir láta sér nægja handgerðan pappír.
Verðlaunaféð er umtalsvert enda var Alfred Nobel ríkur maður er hann lést. Þegar Halldór fékk verðlaunin var verðlaunaféð 190.000 sænskar krónur sem umreiknað yfir í íslenskar krónur dagsins í dag eru tæplega 46 milljónir. Verðlaunaféð í dag er þó enn hærra, eða tíu milljónir sænskra króna. Það eru rúmlega 182 milljónir íslenskra króna.
Yngsti verðlaunahafi bókmenntaverðlaunanna var Rudyard Kipling, höfundur The jungle book en hann var 42 að aldri er hann hlaut verðlaunin. Sá elsti var Doris Lessing, 88 ára gömul. Alls hafa12 konur fengið verðlaunin, þeirra fyrst Selma Lagerlöf árið 1909.