Bókmenntahátíðin í Reykjavík verður sett í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan 17 í dag. Þar ætla rithöfundarnir Steinunn Sigurðardóttir og Anuradha Roy að flytja opnunarræður hátíðarinnar. Athöfnin í Ráðhúsinu verður í beinni útsendingu á Rás 1 og menningarvef RÚV.
Að henni lokinni eða klukkan 19:00 lesa nokkrir íslenskir og erlendir rithöfundar upp úr verkum sínum í Iðnó og næstu fjóra daga verður fjölbreytt dagskrá, upplestrar, samtöl á sviði, uppistand, fyrirlestrar, bókaball og fleira. Ókeypis er inni á alla viðburði.
Dagskrá hátíðarinnar má finna hér:
Á morgun, fimmtudag klukkan 11:00 hefst alþjóðlegt málþing helgað Halldóri Laxness en í ár eru liðin 100 ár síðan fyrsta skáldsaga hans Barn náttúrunnar kom út. Þingið er haldið í samstarfi við Gljúfrastein og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og verður í Veröld , húsi Vigdísar.
Á hátíðinni verða afhent ný alþjóðleg bókmenntaverðlaun, kennd við Halldór Laxness. Að verðlaununum standa forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðherra, Íslandsstofa, Forlagið, sem er útgefandi verka Halldórs Laxness, og Gljúfrasteinn, auk Bókmenntahátíðar í Reykjavík.