Björn Thors spjallar um nálgun leikhússins við Gerplu

23/02 2010

Úr leiksýningunni á Gerplu febrúar 2010

Björn Thors stígur á stokk og spjallar um nálgun leikhússins við Gerplu í stofunni á Gljúfrasteini sunnudaginn 28. febrúar klukkan 16.

Björn sem leikur Þormóð Kolbrúnarskáld í uppfærslu Þjóðleikhússins á verkinu, ætlar að rekja lauslega ferli uppsetningarinnar og glímu leikhópsins við texta verksins og söguna. Spurningar sem hann hefur í huga eru t.d: hvernig er hægt að setja upp leiksýninguna Gerplu? Hvaða vanda stöndum við frammi fyrir þegar hafist er handa við að þýða Gerplu yfir á svið? Verk mánaðarins hefst eins og áður sagði klukkan 16 og eru allir velkomnir. Aðgangseyrir er 800 krónur.

Halldór Laxness markaði nokkur tímamót með Gerplu sem kom út árið 1952, þar gerði hann grín að hefðbundinni afstöðu manna til Íslendingasagnanna og þeirri upphafningu sem var á ímynd víkinga og hetjudáða þeirra. Ásamt einvala liði leikhúsfólks réðst Baltasar Kormákur í að leikgera þessa skáldsögu sem, ólíkt flestum stóru skáldsögum Laxness, hefur aldrei áður ratað á svið.

Gerpla var frumsýnd 12. febrúar síðastliðinn og í apríl verður Íslandsklukkan á fjölunum. Af því tilefni hafa Gljúfrasteinn og Þjóðleikhúsið ákveðið að taka höndum saman og bjóða gestum afslátt á safnið og sýningarnar. Gestir Gljúfrasteins fá leikhúsmiða á Gerplu á aðeins 2.700 krónur (fullt verð 3.400) og leikhúsmiðahafar á Gerplu og Íslandsklukkuna fá aðgang að safninu tveir fyrir einn.