Næstkomandi sunnudag, 30. júní, verða haldnir fimmtu stofutónleikar sumarsins á Gljúfrasteini. Þar kemur fram Björn Thoroddsen sem mun leika á gítarinn eins og honum einum er lagið.
Björn Thoroddsen hefur síðastliðin 30 ár verið einn af atkvæðamestu jazztónlistarmönnum Íslands og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum. Á síðustu misserum hefur Björn verið að koma sér inn í alþjóðlegu gítarhringiðuna með því að leika með þekktum listamönnum á borð við Philip Catherine, Tommy Emmanuel, Leni Stern, Kazumi Watanabe ásamt því að stjórna sinni eigin gítarhátíð á Íslandi sem og gítarhátíðum í Kanada og Noregi.
Á Gljúfrasteini mun Björn leika tónlist úr öllum áttum, s.s rock, country, jazz, blús og fleira. Gestir munu hlýða á útsetningar á lögum úr smiðju listamanna á borð við Deep Purple, AC/DC, Police, Who, Bítlanna en einnig verk Björns sjálfs.
Tónleikarnir hefjast stundvíslega á sunnudaginn kl. 16.00 og kostar 1000 kr. inn.
Hér má finna stofutónleikadagskrá Gljúfrasteins í sumar