Baltasar ætlar að kvikmynda Sjálfstætt fólk

21/09 2012

Sjálfstætt fólk I 1934

Baltasar Kormákur hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn á Sjálfstæðu fólki og Gerplu. Þetta kom fram í viðtali í Kastljósi RÚV fyrr í vikunni. „Þetta er okkar stóra bók og mig hefur lengi dreymt um að kvikmynda hana og líka Gerplu. Þannig að ég tók tvennu á Laxness.“

Ekki er búið að ákveða hver leikur Bjart en einhverjir eru í sigtinu. Baltasar ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þar sem flestir Íslendingar hafa sína sýn á sögunni. „Þetta er bara eins og að setja hausinn í snöruna en mér líður vel með hálsinn þar. Ég er ekkert að reyna að fara auðvelda leið, þetta eru bara sögur sem ég hef rosalega ástríðu fyrir og mér finnst þetta vera sögur sem þjóðin eigi og mig langar til að gefa þjóðinni mína bestu útgáfu af þessum sögum svo að þær fái að lifa í kvikmyndaforminu. Íslenska kvikmyndin er tilbúin til að takast á við svona verkefni.“

Þó nokkur verk skáldsins Halldórs hafa ratað á hvíta tjaldið eða orðið að sjónvarpsmyndum. Síðastliðinn apríl hélt Gljúfrasteinn í samvinnu við Bíó Paradís, Ríkisútvarpið og fleiri aðila kvikmyndahátíðina: „Laxness í lifandi myndum“. Þar voru myndir sýndar sem byggðar eru á verkum Halldórs Laxness. Sumar kunnuglegar en aðrar sem höfðu ekki sést lengi á Íslandi.