Bach og Ravel á Gljúfrasteini

28/07 2010

Ólafur Elíasson, píanó

Sunnudaginn 1. ágúst næstkomandi klukkan 16 mun Ólafur Elíasson flytja verk eftir J.S. Bach og M. Ravel. Hann mun kynna fúgur Bachs sérstaklega, sem voru í miklu uppáhaldi hjá Halldóri Laxness, og gefa tónleikagestum innsýn í þessi verk með nokkrum tóndæmum og léttum útskýringum.

Ólafur var nemandi Rögnvaldar Sigurjónssonar en stundaði framhaldsnám fyrst í París hjá hinum heimsþekkta píanóleikara Vlado Perlemuter og síðar í Englandi, meðal annars við konunglega tónlistarháskólann í London (Royal Academy of Music) þar sem hann lauk einleikaraprófi 1994.

Ólafur hefur haldið tónleika víða, bæði hérlendis og erlendis, einkum á Bretlandi. Hann hefur leikið inn á nokkra geisladiska, meðal annars píanókonserta bæði eftir Bach og Mozart ásamt sinfóníuhljómsveitinni London Chamber Group og hafa þeir fengið frábæra dóma.

Ólafur hefur einnig leikið sem meðleikari með Sigurði Bragasyni baritón og hafa þeir haldið fjölda tónleika víða, og í sumum þekktustu tónleikahúsum heims svo sem Carnegie Hall í New York, Wigmore Hall í London og Kennedy Center í Washington. Washington Post hrósaði meðal annars leik Ólafs og sagði ,,...að leikur hans væri bæði nákvæmur og líflegur!“. Á undanförnum árum hefur Ólafur einnig haldið yfir 200 tónleika í grunnskólum landsins á vegum verkefnisins, ,,Tónlist fyrir alla“. Á þessum tónleikum hefur Ólafur leikið m.a. verk eftir F. Liszt, F, Chopin og A. Schriabin fyrir alla aldurshópa frá 6 - 16 ára.

Aðgangseyrir er 1.000 krónur.

Stofutónleikar Gljúfrasteins eru alla sunnudaga kl. 16.00 í sumar.

Við viljum vekja athygli á að Mos-Bus ekur ókeypis um Mosfellsbæ í sumar. Ferðamannastrætóinn keyrir um götur bæjarins alla daga vikunnar og stoppar á öllum helstu áfangastöðum hans. Gljúfrasteinn er að sjálfsögðu einn af þeim stöðum. Með þessu er verið að bjóða þægilegan og einfaldan möguleika fyrir Íslendinga jafnt og útlendinga til þess að upplifa allt það helsta sem bærinn hefur upp á að bjóða.