Auður Sveinsdóttir Laxness er 92 ára í dag

30/07 2010

Auður við Sfinxinn í Egyptalandi, 1958

Auður fæddist á Eyrarbakka árið þann 30. júlí árið 1918 og voru foreldrar hennar Sveinn Guðmundsson járnsmiður og Halldóra Jónsdóttir, starfskona á sýsluskrifstofunni á Eyrarbakka.

Auður minntist foreldra sinna seinna í viðtali svo: „Pabbi vann sem járnsmiður og var hægur og rólegur maður. Mamma var mikil kvenfrelsiskona, ákaflega sjálfstæð og mikil fjármálakona. Hún réð öllu á heimilinu á svipaðan hátt og ég hef alla tíð gert.“ Fjölskylda Auðar fluttist til Reykjavíkur þegar hún var sjö ára gömul og bjuggu þau á Bárugötunni.

Auður ólst upp á miklum umrótatímum í Reykjavík. Á fyrstu áratugum aldarinnar breyttist Reykjavík hratt, frá því að vera lítið fiskiþorp yfir í að vera höfuðstaður nýs lýðveldis. Árið 1901 voru tæplega 7000 manns búsettir í Reykjavík, en þeim fjölgaði hratt næstu áratugina. Árið 1920 var fjöldi Reykvíkinga um 18.000 og um miðbik aldarinnar voru 56.000 manns búsettir í borginni. Auður þreifst vel í borgarumhverfinu sem var að myndast á uppvaxtarárum hennar. Halldóra móðir Auðar var henni góð fyrirmynd en hún hafði meðal annars sótt nám í Verslunarskólanum. Auður minntist þess seinna að á Eyrarbakka höfðu nágrannar þeirra oft hneykslast á því að móðir hennar hefði haft meiri áhuga á að vinna á sýsluskrifstofunni en að hengja þvottinn sinn pent upp á snúrur. Þessa vandlætingu var vart að finna í ört vaxandi höfuðstað Íslands.

Auður var af nýrri kynslóð borgarbarna. Hún lýsti sjálfri sér seinna meir sem róttækum unglingi. Eina sögu sagði hún frá heimsókn sinni til móður vinkonu sinnar sem býsnaðist yfir því hve tómatar, þá nýjung á íslenskum markaði, væru dýrir. Auður svaraði fullum hálsi: „Ég held þeir þurfi ekki að kvarta yfir verðinu á tómötum, sem bera allt sitt fram á silfurfötum!“

Auður vann með gagnfræðaskólanum sem blaðberi og bar út nýjustu fréttir frá útlöndum til borgarbúa. Eftir útskrift úr gagnfræðaskólanum hóf hún að vinna sem einkaritari og röntgentæknir á Landsspítalanum og þegar BSRB var stofnað varð Auður fulltrúi röntgenkvenna þar. Nítján ára hitti hún svo Halldór Laxness á Laugarvatni. Fjórum áratugum síðar rifjaði hún upp þessa fundi: „Við Halldór fórum út að ganga að kvöldi til. Við gengum svolítinn spöl inn dalinn og settumst á þúfu við lítinn læk. Stuttu síðar teygði Halldór sig eftir blómi yfir öxlina á mér, og þar með voru forlögin ráðin.“

Starfsfólk Gljúfrasteins óskar Auði innilega til hamingju með afmælið.

Fríða Björk Ingvarsdóttir tók viðtal við Auði í tilefni af aldarafmæli Halldórs. Viðtalið birtist í Lesbók Morgunblaðsins og er hægt að lesa það í heild sinni hér.

Heimildir:

Edda Andrésdóttir og Auður Sveinsdóttir Laxness. Á Gljúfrasteini. Reykjavík: Vaka 1984. 
Fríða Björk Ingvarsdóttir. „Frjáls í mínu lífi“ í Lesbók Morgunblaðsins, 20. apríl 2002
Kolbrún Bergþórsdóttir. „Ég hef aldrei þekkt mann eins og hann“ í Dagur, 8. nóvember 1997.