Atómstöðin og Brekkukotsannáll í Bíó Paradís

28/04 2012

Tinna Gunnlaugsdóttir í hlutverki Uglu í kvikmyndinni Atómstöðin sem var frumsýnd árið 1984.

Í kvöld eru lokasýningar kvikmyndahátíðarinnar Laxness í lifandi myndum í Bíó Paradís. Því er um að gera að drífa sig að sjá Atómstöðina kl. 18:00 og svo Brekkukotsannál kl. 20:00. Ekki missa af þessu einstaka tækifæri!

Atómstöðin var frumsýnd árið 1984. Þorsteinn Jónsson leikstýrði myndinni en aðalleikarar voru: Tinna Gunnlaugsdóttir, Gunnar Eyjólfsson, Helgi Björnsson, Jónína Ólafsdóttir og Sigrún Edda Björnsdóttir.

Atómstöðin var gefin út árið 1948. Þar segir af Uglu, bóndadóttur að norðan, sem kemur til Reykjavíkur að læra á orgel. Hún ræður sig í vist hjá Búa Árland, sem er þingmaður og heildsali, og sækir tónlistartíma hjá Organistanum. Inn í söguna blandast meðal annars samningar um bandaríska herstöð í Keflavík auk annarra hitamála upp úr seinna stríði og ádeilur á borgaraleg gildi og vestrænt siðferði.

Brekkukotsannáll var sjónvarpsmynd í tveimur hlutum sem var frumsýnd árið 1973. Myndin hefur aldrei áður verið sýnd í lit og á hvíta tjaldinu svo hér gefst einstakt tækifæri á að sjá 40 ára gamla perlu. Með aðalhlutverk fara Jón Laxdal, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Þorsteinn Ö. Stephensen, Nikulás Þorvarðsson, Regína Þórðardóttir, Róbert Arnfinnsson og Árni Árnason.

Brekkukotsannáll kom út árið 1957. Sagan gerist í upphafi 20. aldar og er frásögn Álfgríms af afa og ömmu í Brekkukoti í Reykjavík og stórsöngvaranum Garðari Hólm. Álfgrím langar að læra að syngja og finna hinn hreina tón. Sagan gerist innan og utan við krosshliðið í Brekkukotir sem skilur að tvo heima. Innan krosshliðsins - í Brekkukoti - einkennist lífið af hreinlyndi, hógværð og iðni en utan þess - í Gúðmúnsensbúð - er allt hið gagnstæða og sú list sem þar á sér griðastað er ekki sönn.

Kvikmyndir eftir verkum Halldórs Laxness hafa verið til sýninga í Bíó Paradís frá því á mánudag. Hér má sjá heildardagskrána.

Hægt er að nálgast miða á midi.is eða í Bíó Paradís eftir klukkan 17.