Ástarjátning á vetrarsólstöðum 1939

21/12 2018

Hjónin á Ítalíu árið 1948 

21. desember árið 1939 fóru Halldór Laxness og Auður Sveinsdóttir í göngutúr í Öskjuhlíð í Reykjavík.  Þau höfðu kynnst um sumarið en þennan dag komst Auður að því að Halldór væri ástfanginn af henni. Þau höfðu gengið nokkurn spöl þegar Halldór sagði henni að í grein í jólablaði Vikunnar sem hann hafði skrifað og birtist í blaðinu þennan dag væru skilaboð til hennar:

,, ... og ef maður elskar stúlku heitar en lífið í brjósti sínu, þá á maður að óska henni gleðilegs sumars 21. desember, því að þann dag byrjar sumarið."

Þannig voru skilaboðin til Auðar í greininni sem bar yfirskriftina ,,Heiðin jól og kristin“ .
Upp frá því var 21. desember ávallt þeirra dagur.  ,, ... já þetta er rómantískt.“ Sagði Auður í útvarpsviðtali nær hálfri öld og mörgum ævintýrum síðar og bætti við að þau hefðu alltaf haldið smá veislu þennan dag og gefið hvort öðru jólagjafir. 
Auður og Halldór giftu sig 6 árum síðar, á aðfangadag árið 1945.