Næstkomandi sunnudag, þann 1. júlí, munu Andrés Þór Gunnlaugsson gítarleikari og Sigurður Flosason saxófónleikari leiða saman hesta sína á Gljúfrasteini og framkalla ljúfa tóna fyrir áheyrendur. Þeir munu leika vel valin lög úr eigin lagasöfnum í notalegri dúettauppsetningu. Tónleikarnir hefjast klukkan 16.00 og eru öllum opnir. Aðgangsverð er 1000 kr.
Andrés Þór er fæddur 27. Desember 1974 í Reykjavík. Hann hóf gítarnám um 12 ára aldur. Eftir útskrift úr tónlistarskóla FÍH lá leið til Hollands þar sem Andrés nam við hinn konunglega Tónlistarháskóla í Den Haag frá árinu 2000. Andrés lauk BM gráðu vorið 2004 og Meistaragráðu 2006. Á námsárunum í Hollandi nam Andrés undir handleiðslu kennara á borð við Wim Bronnenberg, Peter Nieuwerf, Eef Albers, John Ruocco og Hein van der Geyn. Auk þess sótti Andrés masterclassa og vinnubúðir hjá heimsþekktum jazztónlistarmönnum og ber þar hæst að nefna Michael Brecker, Kurt Rosenwinkel, John Abercrombie og Avishai Cohen.
Dvöl Andrésar í Hollandi leiddi til fyrsta hljómdisks Andrésar í samstarfi við félaga sína í orgeltríóinu Wijnen, Winter & Thor en diskurinn var “It was a very good year” (ww&t 2004) og innihélt lög eftir Andrés og orgelleikarann Bob Wijnen auk eins lags eftir tríóið.
Síðastliðin ár hefur Andrés starfað mestmegnis á Íslandi og komið hafa út tveir hljómdiskar undir hans eigin nafni.
Sigurður Flosason (f. 1964) lauk einleikaraprófi á saxófón frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1983. Hann stundaði framhaldsnám í klassískum saxófónleik og jazzfræðum við Indiana University í Bandaríkjunum og lauk þaðan Bachelorsprófi 1986 og Mastersprófi 1988. Sigurður stundaði einkanám hjá George Coleman í New York veturinn 1988-1989. Hann hefur verið aðstoðarskólastjóri og yfirmaður jazzdeildar Tónlistarskóla FÍH í Reykjavík frá 1989.
Sigurður hefur tekið þátt í mörgum fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum og leikið talsvert erlendis. Á Íslandi hefur hann starfað með ýmsum hljómsveitum við flestar gerðir tónlistar, verið ötull við tónleikahald, leikið inn á geisladiska ólíkra listamanna og starfað í leikhúsum, auk ýmissa félags- og stjórnunarstarfa tengdum tónlist. Sigurður hefur þrívegis verið kjörinn jazzleikari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og tvívegis verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Sigurður hefur þannig um árabil verið meðal atkvæðamestu jazztónlistarmanna þjóðarinnar. Hann hefur gefið út á annan tug geisladiska í eigin nafni.