Úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov hefur tekið við Alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness. Athöfnin fór fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands þann 7. september og veitti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verðlaunin.
Höfundurinn er einn þekktasti rithöfundur Úkraínu og hafa verk hans verið gefin út á 42 tungumálum. Bók hans, Dauðinn og Mörgæsin, sló í gegn víða um heim þegar hún kom út. Bókin var gefin út á íslensku, í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur, árið 2005 og var endurútgefin í ár.
Kúrkov er forseti alþjóðlegu rithöfundasamtakanna PEN í Úkraínu og hefur einsett sér undanfarið að fjalla um innrásina í Úkraínu. Bók hans, Diary of an Invasion, verður gefin út í september.
Hefur þó Kúrkov notið dvalarinnar á Íslandi og haft mikið fyrir stafni en heimsótti hann Gljúfrastein í blíðskaparveðri fyrr í vikunni. Hann hefur hitt fyrir landa sína sem hingað hafa flúið en kenndi hann skapandi skrif fyrir úkraínsk börn á dögunum.
Þá kom hann einnig fram á upplestrarkvöldi í Iðnó af tilefni verðlaunanna en ásamt honum lásu Guðrún Eva Mínervudóttir og Bergþóra Snæbjörnsdóttir.
Kúrkov segir mikilvægt að varðveita menningu Úkraínu og að hún fái að lifa áfram í evrópsku samhengi, því árásin sé einnig menningarleg, sjálfsmynd og frelsi sé háð menningarlegri tjáningu. Sjá betur í umfjöllun Kastjóss um Kúrkov.