Síðan 1999 hefur 21. febrúar verið alþjóðadagur móðurmálsins og á þeim degi skyldi vakin athygli á mikilvægi móðurmálsins í námi og starfi. Árið í ár er engin undantekning og standa þessa dagana Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og íslenska Unesco nefndin fyrir viðburðum í nafni alþjóðlegu móðurmálsvikunnar.
Frekari upplýsingar um alþjóðlegu móðurmálsvikuna má finna hér.
Íslendingar ættu að láta sig mikilvægi móðurmálsins miklu varða, enda var mjótt á munum á tímabili að íslenskan glataðist og danska væri tekin upp í hennar stað. Halldór Laxness átti ásamt öðrum rithöfundum sinn þátt í að festa íslenskuna í sessi með því að velja að skrifa á því tungumáli þrátt fyrir að lesendahópurinn yrði takmarkaður og frægð og frami á erlendri grund því alltaf háður þýðingum.
Tungumálið og notkun þess var Halldóri ofarlega í huga eins og sjá má af grein sem hann skrifaði í Eimreiðina árið 1974 . Það er kannski engin furða enda var tungumálið lifibrauð hans alla tíð. Hann dáðist að vönduðu málfari og safnaði jafnvel lítið notuðum orðum sem hann heyrði á ferðum sínum um landið.
Hér á síðunni má finna brot úr formála sem Halldór skrifaði fyrir bók eftir íslenskan afdalabónda að nafni Kjartan Júlíusson frá Skáldstöðum efri. Í þeim texta má glöggt sjá virðinguna sem Halldór bar fyrir tungumálinu og þeim sem kunnu að nota það.
„Af bréfum hans, minnisblöðum og skrifuðum athugunum sá ég að þessi kotbóndi hafði snemma á valdi sínu furðulega ljósan hreinan og persónulegan ritstíl, mjög hugþekkan, þar sem kostir túngunnar voru í hámarki, blandnir norðlenskum innanhéraðsmálvenjum sem alt er gullvæg íslenska; og ég velti þessu hámentabókmáli fyrir mér af þeirri orðlausu undrun sem einstöku sinnum grípur mann gagnvart íslendíngi. Þarna skrifaði blásnauður afdalakall, ósnortinn af skóla, svo dönskuslettulaust, þeas svo lítt þrúgaður af kúgun fyrri alda, að maður gat lesið hann af álíka öryggi og Njálu …“