Altaristafla, miðilsfundir og yfirvaraskegg

28/05 2011

Jóhannes skírari eftir Jóhannes Kjarval (1882-1972) var málað árið 1924 sem altaristafla fyrir Rípurkirkju í Skagafirði.

Í anddyri Gljúfrasteins er að finna málverk eftir Jóhannes Kjarval (1885-1972) sem var málað árið 1924. Verkið ber heitið „Jóhannes skírari“ og sýnir skírn Jesú. Skírnin á sér stað í íslensku umhverfi. Málverkið er málað í sauðarlitunum og bakgrunnur myndarinnar er íslenska hálendið, grófir og kraftmiklir íslenskir klettar.

Var því upphaflega ætlað að vera altaristafla í Rípurkirkju í Hólaprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi sem þá var verið að byggja. Árið 1925 var málverkið hengt yfir altari nýrrar Rípurkirkju og þrír prestar og prófastur hefja vígslumessu kirkjunnar. Ólafur Sigurðsson, bóndi á Hellulandi í Skagafirði, skrifaði árið 1959 lýsingu af því hvernig sú messa átti sér stað. Hann segir svo:

Að athöfninni lokinni vildu allir fá að skoða hina nýju altaristöflu. Prestarnir fyrst. Þeir athuguðu hana gaumgæfilega frá öllum hliðum, rýndu á hana í gegnum hönd sér og kváðu svo upp dóminn:

„Guð minn góður! Þetta getur ekki gengið. Þetta er söguleg fölsun. Hér sýnir málarinn Krist sem ungling, en Jóhannes skírara sem öldung. Biblían segir að aldursmunur þeirra hafi aðeins verið sex mánuðir. Það getur ekki gengið að hafa þessa mynd í guðshúsi“.

Aumingja konurnar urðu bæði skelfdar og hryggar, þegar þær heyrðu þennan úrskurð prestanna. En hér var ekki um annað að ræða en fjarlægja töfluna hið bráðasta og kaupa nýja altaristöflu. Eina bótin að ekki höfðu verið greiddar nema 300 krónur fyrir þessa.

Altaristaflan fór nú á flakk í héraðinu, þar til að Ólafi bónda tekst að festa kaupum á henni, þá illa farinni með ljótum málningarklessum. Eitt sinn hitti Ólafur Kjarval og barst talið að altaristöflunni á Ríp. Ólafur lýsir samtalinu svo:

Kjarval hlustaði á með athygli, en sagði svo: „Það er ekki verið að skíra Krist. Það er verið að skíra smalann. Skrifaðu fyrir mig á töfluna: „Vígsla þjóðarinnar“.

Ólafur sendir myndina í viðgerð í Kaupmannahöfn eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar en þar týnist hún og sést ekki í rúman áratug. En árið 1958 situr Ólafur miðilsfund undir stjórn Hafsteins Björnssonar og ári seinna skrifar hann um þennan fund:

Þar koma ætíð til mín faðir minn og Skúli prófessor [Guðjónsson] og eru svo „sterkir“ að ég get spurt og spjallað við þá góða stund. Að þessu sinni náði ég tali af Skúla og sagði honum farir mínar ekki sléttar, allsstaðar væri verið að leita að altaristöflunni, en hvergi fyndist hún.

Og eftir nokkra miðilsfundi þar sem Ólafur talar við Skúla með hjálp Hafsteins miðils, þá segir Skúli loks hvar myndina megi finna, og viti menn, altaristaflan finnst!

Ólafur og Halldór Laxness voru kunningjar og kom Halldór stundum við hjá Ólafi er hann var á ferð á Norðurlandi.  Eftir lát Ólafs hafði ekkja hans samband símleiðis við Halldór Laxness og bauð honum að kaupa myndina.

Listamaðurinn Kjarval kom einhverju sinni í heimsókn á Gljúfrastein til að árita myndina og vildi þá líka fyrir alla muni setja einhvers konar skegg á efri vör Jóhannesar skírara í verkinu. Halldór stöðvaði þær endurbætur þótt það megi hæglega sjá móta fyrir fáeinum svörtum strikum á andliti skírarans. Til þess að sjá þessi strik, smellið á myndina til að sjá hana í betri upplausn.

Hægt er að lesa alla sögu Ólafs af ævintýrum málverks Jóhannesar Kjarvals af Jóhannesi skírara. Þessi frásögn var birt í Lesbók Morgunblaðsins árið 1969 og er hægt að lesa hana alla á tímarit.is, eða með því að smella hér.