Stofutónleikaröðin á Gljúfrasteini heldur áfram á sunnudögum í júlí. Meðal þess sem boðið verður uppá næstu fjóra sunnudaga eru ljóðatónleikar, tilraunakennd popptónlist, dróttkvæði miðalda og öndvegissónötur eftir J.S Bach og Cesar Franck.
Sunnudaginn 7. júlí flytur Jófríður Ákadóttir (JFDR) lágstemmdar útgáfur af tilraunakenndri popptónlist sinni. Hún spilar á gítar og systir hennar, Ásthildur Ákadóttir spilar á píanó.
Viku síðar, sunnudaginn 14. júlí koma Guðný Guðmundsdóttir og Cary Lewis á Gljúfrastein þar sem þau ætla að flytja tvær öndvegissónötur fyrir fiðlu og píanó eftir J. S. Bach og Cesar Franck. Sónatan eftir Cesar Franck er ein vinsælasta fiðlusónata allra tíma en Guðný og Cary fagna því að um þessar mundir eru 50 ár frá því að þau fluttu verkið saman á tónleikum í Eastman School & Music. Guðný var þá fyrsta árs nemandi og Cary á síðasta ári í doktorsnámi.
Sunnudaginn 21. júlí er komið að Schola cantorum sem ætla að flakka um lendur íslenskrar tónlistar þar sem dróttkvæði miðalda koma við sögu, veraldlegur kveðskapur Hallgríms Péturssonar auk ljóða nóbelsskáldsins á Gljúfrasteini.
Í lok júlí eða sunnudaginn 28. júlí ætlar barítónsöngvarinn Jóhann Kristinsson að halda ljúfa ljóðatónleika í stofunni. Ammiel Bushakevit leikur á píanó.
,, ...þó hefur ekki komið sá dagur yfir mig að ég efaðist um yfirburði tónlistar yfir bókmenntir í því að tjá þá opinberun sem mannshugurinn hefur af alheiminum. Ég heyri sjaldan svo vonda tónlist að hún segi mér ekki meira en talað orð."
- Halldór Laxness í viðtali í Ríkisútvarpinu árið 1965.
Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir hvern sunnudag frá júní og út ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2500 kr. Ókeypis er fyrir börn á leikskólaaldri.