Á aðventuupplestri sunnudaginn 13. desember næstkomandi munu fimm rithöfundar lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum.
Jón Kalman Stefánsson les upp úr bók sinni Eitthvað á stærð við alheiminn. Bókin er framhald af Fiskarnir hafa enga fætur (2013). Sagt er frá ástinni, sem er í senn fórn og jafnvægislist, frá lífi og dauða, krepptum hnefa, Elvis Presley sem kann að opna hjörtun og stjörnum himinsins sem hverja í eldi sólarinnar.
Kristín Helga Gunnarsdóttir les úr bók sinni Litlar byltingar. Þar segir frá sögum af tíu konum sem spanna í senn eitt kvöld, eitt ár og heila öld. Raddir mæðgna, systra og dætra óma. Þeim dreymir um betri daga, sléttar götur, frjálsar konur og börn sem lifa.
Dóri DNA kemur með ljóðabók sína, Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir – Lítil atvik, mikil eftirmál. Hann segir að frásögnin liggi svolítið í því að hann muni allt í einu eftir því að hafa verið einhversstaðar og hvernig honum leið: „Djöfull væri ég til í að koma ríðandi aftur á hesti og segja þeim hvað ég hef breyst.“ Það er svolítið tónninn í bókinni, þetta er eins og að skrifa söguna upp á nýtt sem sigurvegari.“
Linda Vilhjálmsdóttir les upp úr ljóðabók sinni Frelsi. Bókin geymir um fimm tugi beittra, pólitískra ljóða, bók sem hreyfir við hugsunum og tilfinningum.
Hallgrímur Helgason les upp úr Sjóveikur í München. Bókin lýsir örlagavetri í eigin lífi, sínum fyrsta utan föðurlands og móðurhúsa.
Upplesturinn hefst stundvíslega klukkan 16.00 og er aðgangur ókeypis.
Á aðventuupplestri 20. desember koma fram:
Kristín Svava Tómasdóttir - Stormviðvörun
Óskar Árni Óskarsson - Blýengillinn
Ólafur Ingi Jónsson - Nína Tryggvadóttir
Ólafur Gunnarsson - Syndarinn