Í dag miðvikudaginn 30. júlí minnumst við Auðar Sveinsdóttur sem hefði náð níutíu og sex ára aldri en hún fæddist í samkomuhúsinu Fjölni á Eyrarbakka þann 30. júlí 1918.
Foreldrar Auðar voru Halldóra Kristín Jónsdóttir og Sveinn Guðmundsson. Árið 1925 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þar sem Auður ólst upp í hópi svipmikilla systra, þeirra Ásdísar gullsmiðs og Fríðu píanókennara. Eftir gagnfræðipróf hóf Auður störf á röntgendeild Landspítalans. Nokkrum vikum áður en heimstyrjöldin síðari skall á byrjuðu Auður og Halldór að dragast hvort að öðru. Þau voru bæði stödd á Laugarvatni þegar liðið var á ágúst og í göngutúr eitt kvöldið voru forlögin ráðin, eins og Auður orðaði það í bókinni Á Gljúfrasteini sem Edda Andrésdóttir tók saman og kom út síðla árs 1984.
Auður og Halldór fluttu á Gljúfrastein á aðfangadag 1945 sama dag og þau gengu í hjónaband og héldu þar heimili alla tíð síðan.
Viðtal sem Fríða Björk Ingavarsdóttir tók við Auði í tilefni hundrað ára ártíðar Halldórs Laxness og birtist í Lesbók Morgunblaðsins má lesa í heild sinni hér.
Föstudaginn 22. ágúst næstkomandi opnar sýningin Auður á Gljúfrasteini í Listasal Mosfellsbæjar þar sem Auðar verður minnst og verkum hennar gerð skil.