Í dag er afmælisdagur Auðar Sveinsdóttur Laxness en hún var fædd 30. júlí 1918. Á síðasta ári var haldið upp á aldarafmæli hennar hennar, með sýningu á Gljúfrasteini sem bar yfirskriftina ,,Frjáls í mínu lífi" þar sem hönnun hennar, greinaskrif og handverk var í öndvegi. Heiti sýningarinnar var tilvísun í viðtal sem birtist í Morgunblaðinu 2002, sem Fríða Björk Ingvarsdóttir tók við Auði. Eins og kunnugt er var Auður annáluð hannyrðakona og hafa uppskriftir hennar birst víða og njóta enn athygli. Í safnbúð Gljúfrasteins má m.a. finna uppskrift frá Auði af fallegum púða sem hún saumaði til minningar um ferð hennar og Halldórs til Parísar 1947. Púðinn fékk nafnið Landaparís. Hér á síðunni má lesa greinar eftir Auði, um fjölskyldu hennar og um sýningar sem settar hafa verið upp henni til heiðurs.