Dúó Stemma flytur tónleikritið „Heyrðu villuhrafninn mig“ á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 14. juní. „Heyrðu villuhrafninn mig“ er hljóðsaga þar sem hin ýmsu hljóðfæri koma við sögu. Dagskráin inniheldur bæði íslenskar þulur og þjóðlög sem koma fram í þessari frumsömdu sögu um þau Fíu frænku og Dúdda og ævintýralega leit þeirra að rödd Dúdda sem hefur verið stolið! Villuhrafninn, dvergurinn Bokki og fleiri góðir vinir koma einnig við sögu í þessari viðburðaríku dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Dúó Stemma skipa þau Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari. Dúóið hefur leikið saman í rúm tíu ár og frumflutt fjölda verka samin sérstaklega fyrir þau. Saman hafa þau Herdís Anna og Steef leikið í fjölmörgum leik- og grunnskólum.
Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.