Núna á sunnudögum í desembermánuði var boðið í upplestra í stofu Gljúfrasteins þar sem rithöfundar lásu upp úr nýjum ritverkum sínum. Dagskráin var fjölbreytt og stofugestir hlýddu á höfunda lesa úr nýjum ljóðabókum, smásögum, sögulegum skáldsögum ævisögubrotum í skáldsöguformi og skáldsögum.
Síðasta sunnudaginn fyrir jól mættu til leiks Eiríkur Guðmundsson sem las úr sögu sinni Sírópsmána, Gerður Kristný sem las úr Blóðhófnum, Bjarki Bjarnason sem las úr Líkmönnum glatkistunnar, Ófeigur Sigurðsson sem las úr Skáldsögunni um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma og Guðbergur Bergsson sem las úr Missi.
Þessir upplestrar voru festir á filmu af Þorsteini J. fyrir verkefnið Sögueyjan Ísland. Sögueyjan Ísland undirbýr þátttöku Íslendinga í bókamessunni í Frankfurt núna á þessu ári. Íslendingar eru heiðursgestir hátíðarinnar 2011.